Samtakamáttur á aðventu

Nýtt framtak er orðið til á gömlum grunni. Mæðrastyrksnefnd Akureyrar, Hjálparstarf kirkjunnar, Hjálpræðisherinn og Rauði krossinn sameinast nú um stuðning við þau sem þurfa á sérstakri aðstoð að halda fyrir jólin. Vonir standa til að fólk á svæðinu taki höndum saman til styrktar þessu verkefni, því sameinuð getum við lyft grettistaki.

Það er ekki auðvelt að standa í þeim sporum að þurfa að leita eftir aðstoð hjá góðgerðarfélögum eða hjálparsamtökum. Mörg úr okkar hópi íbúa hér í Eyjafirði stóðu í þeim sporum fyrir síðustu jól og þau verða ekki færri nú. Því miður. Gera má ráð fyrir rúmlega 500 slíkum umsóknum fyrir þessi jól. Flest þeirra sem ákveða að fylla út slíka umsókn, hvort heldur þau búa ein eða eru með fjölskyldu, eiga það sameiginlegt að vera búin að marg spyrja þeirrar spurningar hvort ekki sé til önnur leið. Síðasta úrræðið er að leita eftir aðstoð hjá góðgerðasamtökum.

Með þessari breytingu hverfa matarpokaúthlutanir. Eftir að umsókn hefur verið metin fær viðkomandi einstaklingur eða fjölskylda úthlutað inneignakorti / gjafabréfi sem léttir undir jólainnkaupin. Ný samstaða fæðist þar með, því mörkin milli þess sem gefur og þess sem þyggur verða óljósari. Tilfinning þess sem sækir um styrk verður síður sú að hann / hún sé í stöðu hins hjálparþurfi. Líklegra er að tilfinningin verði sú að við sem samfélag séum að taka höndum saman svo að öll getum átt jól með sæmilegri reisn.

Tvennt þarf þó að koma til svo að af því geti orðið. Annars vegar þurfa aflögufærir einstaklingar, fyrirtæki, félagasamtök og stofnanir í samfélaginu að leggja átakinu lið með því að leggja pening inn á reikning verkefnisins, (0302-13-175063, kt. 460577-0209) eða með því að koma gjafabréfum til Mæðrastyrksnefndar. Hins vegar þurfum við öll, ég og þú, að taka þessu framtaki vel og líta á það sem lið í því að sameinuð tökum við skref í átt að því manneskjuvæna samfélagi sem við viljum sjá hér norðan heiða.

Gleðilega aðventu

Pétur Björgvin Þorsteinsson, djákni í Glerárkirkju

P.S. Nánari upplýsingar um jólaaðstoðina fást í síma Mæðrastyrksnefndar, 867 5258 milli 10:00 og 12:00 á mánudögum, þriðjudögum og miðvikudögum. Fólk sem vill sækja um aðstoða er hvatt til að hringja sem fyrst og í síðasta lagi 11. desember.