Samstaða, skilningur og kærleikur

Um fimmtíu manns tóku þátt í ráðstefnu Alkirkjuráðsins í Colombo í Sri Lanka í gær, 6. júní 2012, þar sem guðfræði díakoníunnar (kærleiksþjónustunnar) var rædd út frá aðstæðum fólks sem er jaðarsett sem og út frá þörfum fátækari landa á suðurhveli jarðar. Í umræðunum kom fram mikilvægi þess að díakonían væri ekki eitthvað sem söfnuðir gætu litið á sem afmörkuð verkefni og jafnvel falið öðrum að sinna þeim. Díakonían snérist um viðhorf og lífsstíl safnaðarins sem heildar.

Ein frummælenda var Dr. Liz Vuadi Vibila, guðfræðingur frá Kongó og lagði hún mikla áherslu á pólitíska samstöðu díakoníunnar og tók fram að á meðan kirkjan þyrði ekki að mótmæla ofbeldi og óréttlæti af einhverri alvöru þá væri hún ekki sönn í þeirri köllun sem díakonían felur í sér.

Dr. Walter Altmann frá Alkirkjuráðinu lagði m.a. áherslu á það í máli sínu að díakonían væri ákveðin tegund valds, eða valdaform sem setti þjónustuna í forgrunn og spurði hvernig við gætum haft áhrif á pólitísk kerfi samtímans ef við settum þjónustuna við náungann í fyrsta sætið og bætti við:

“Smaller churches with little material resources have learned that the diaconal ministry is not a privilege of rich churches, because it is not primarily a matter of investing financial resources, but of persons placing themselves alongside those who need their service of solidarity, compassion and love,”

Sem mætti útleggja í lauslegri þýðingu: Minni kirkjur sem hafa úr litlu að moða hafa lært að kærleiksþjónustan er ekki forréttindi ríku kirknanna. Því díakonían snýst ekki í peningaútgjöldum heldur í því að fólkið sjálft - söfnuðurinn - taki sér stöðu í þjónustuanda við hlið þeirra sem þurfa á samstöðu, skilningi og kærleika að halda.

Sjá nánar í frétt á vef Alkirkjuráðsins.