Samræðukvöld haustið 2011

Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi í samstarfi við Glerárkirkju stendur fyrir samræðukvöldum á miðvikudögum kl. 20:00 í október og nóvember eins og undanfarin misseri. Tilgangurinn með þeim er að skapa vettvang til samtals um kirkju og kristni og eru allir sem áhuga hafa velkomnir til að taka þátt í samtalinu. Hvert kvöld hefst með helgistund og tveggja manna tali klukkan átta. Þar ræða tveir einstaklingar efni kvöldsins. Í kringum níuleytið er tekið stutt kaffihlé áður en að almennar umræður hefjast.
Að þessu sinni leggjum við aðallega bók páfa ,,Jesús frá Nasaret" til grundvallar umræðunni. Í bókinni birtist áhugaverð samfélagsrýni fræðimannsins Josephs Ratzinger, en þetta er fyrsta bók hans eftir að hann settist á páfastól sem Benedikt XVI. Bókin er innlegg í samtalið milli samfélagsins og kristninnar.
Á þessum átta samræðukvöldum er leitast við að kalla til samtals um helgustu rit kristninnar, guðspjöllin. Meðal annars er horft til sögunnar, spurt er um raunveruleikatengingar, málefnum kirkju velt upp, guðfræðin krufin til mergjar, rýnt í tengsl leikhúss og helgihalds, sjóðir bókmennta og lista nýttir til samtals og tengsl guðspjallanna við menningu, siðferði og samfélag skoðuð.
Dagskrárlok eru hvert kvöld klukkan tíu.

Hér á vefnum má nálgast bækling með dagskrá kvöldanna.