Samkirkjuleg bænavika 18.-25 janúar

Um helgina hefst samkirkjuleg bænavika. Að vanda er farið á milli safnaðanna og beðið saman. Það eru Aðventistar, Hvítasunnukirkjan, Hjálpræðisherinn, Kaþólska kirkjan og Þjóðkirkjan sem standa fyrir þessum samverun á Akureyri. Fimmtudaginn 21. janúar kl. 20 verður svo sameiginleg samkoma þar sem Gospelkór Akureyrar og Kór Glerárkirkju syngja og leiða söng. Það verður mikill almennur söngur. Ræðumaður verður sr. Björgvin Snorrason prestur Aðventista á Akureyri og fulltrúar frá söfnuðunum taka þátt í samkomunni. Eitt af markmiðum vikunnar er að hvetja fólk í söfnuðunum að taka stundir til bæna- og íhugunar. Átta daga bænirnar sem fylgja hér með eru íhugunarefni og bænir fyrir hvern dag þessa átta daga og vilja undirbúningsnefndirnar hvetja alla að nýta þetta efni á bænastundum sínum. Efnið að þessu sinni var undirbúið í Lettlandi.

 

Átta daga bænirnar fylgja hér á eftir eftir dögunum fylgir hér með. Einnig á Pdf-formi ef menn vilja hafa þá á tölvunni sinni eða síma til að taka þátt í bænalestrinum: Átta daga bænirnar 2016

Alþjóðleg, samkirkjuleg bænavika fyrir einingu kristninnar 2016

Efni frá Lettlandi: Kölluð til þess að víðfrægja dáðir Drottins (1Pét 2.9)

HUGLEIÐINGAR ÚT FRÁ BIBLIUNNI OG  BÆNIR FYRIR DAGANA ÁTTA

Mánudaginn 18. janúar

DAGUR 1

Veltið burt steininum

Esk 37.12-14
Ég opna grafir ykkar og leiði ykkur, þjóð mína, úr gröfum ykkar.

Sálm 71.18b-23
Máttur þinn og réttlæti, ó Guð, nær til himins.

Róm 8.15-21
Við líðum með honum, til þess að við verðum einnig vegsamleg með honum.

Matt 28.1-10
Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði.

Skýringar

Kaþólska æskulýðsmiðstöðin í erkibiskupsdæminu Riga undirbjó hugleiðingar dagsins. Þær spruttu upp af reynslu við skipulagningu viðburðar sem nefndur er Samkirkjulegur krossferill, en þar er um að ræða afar áhrifamikinn árlegan atburð í lífi Letta. Þessi reynsla hvetur til íhugunar um það hvað þjáningar og upprisa merkja í lettneskum aðstæðum og hverjar þær dáðir Drottins eru (1Pét 2.9) sem skírðir kristnir menn eru kallaðir til að boða.

 •  Saga Lettlands á Sovéttímanum varpar enn skugga yfir þjóðina. Enn ríkir mikil sorg og þjáning og erfitt er að fyrirgefa þau sár sem veitt hafa verið. Allt er þetta eins og steinninn stóri sem byrgði munnann á gröf Jesú. Slík sár fjötra okkur í andlegri gröf.
 •  En ef þjáning okkar er sameinuð sársauka hans lýkur sögunni ekki þar, með innilokun í andlegri gröf. Jarðskjálftinn við upprisu Drottins er sá stórkostlegi atburður sem opnar gröfina og frelsar okkur frá sársaukanum og beiskjunni sem einangrar okkur hvert frá öðru.
 • Þetta er hið mikla verk Drottins; kærleikur hans sem skekur jörðina, veltir frá steininum, frelsar okkur og kallar okkur fram til morguns nýs dags. Hér, við þessa nýju dögun, erum við aftur sameinuð bræðrum okkar og systrum sem einnig hafa setið í fangelsi og liðið sársauka. Og líkt og María Magdalena verðum við að ?fara í skyndi? frá þessum gleðilega atburði og segja öðrum hvað Drottinn hefur gert.

Spurningar

 • Hvaða atburðir og aðstæður í lífi okkar og kringumstæðum leiða til þess að við lokum okkur inni í gröf okkar ? í sorg, hryggð, áhyggjum, kvíða og örvæntingu? Hvað kemur í veg fyrir að við tökum á móti loforðinu og gleðinni sem felst í upprisu Krists?
 • Hversu fús erum við að deila reynslunni af Guði með þeim sem við hittum?

Bæn

Drottinn Jesús, þú hefur elskað okkur allt frá upphafi og sýnt styrk kærleika þíns til okkar með því að deyja fyrir okkur og deila þannig með okkur þjáningum okkar og sársauka. Á þessu andartaki leggjum við allar þær hindranir sem skilja okkur frá kærleika þínum að fótskör þinni. Vek þú okkur upp til upprisumorguns þíns. Mættum við hitta þar bræður okkar og systur sem við erum aðskilin frá. Amen.

Þriðjudagur 19. janúar

DAGUR 2

Kölluð til að boða gleði

Jes 61.1-4
Andi Drottins er yfir mér því að Drottinn hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap.

Sálm 133
Sjá, hversu fagurt og yndislegt það er þegar bræður búa saman.

Fil 2.1-5
Gerið gleði mína fullkomna með því að vera einhuga, hafa sama kærleika, einn hug og eina sál

Jóh 15.9-12
Þetta hef ég talað til yðar til þess að fögnuður minn sé í yður og fögnuður yðar sé fullkominn

Skýringar

Á Sovéttímanum höfðu kristnir menn engan aðgang að fjölmiðlum í Lettlandi. Eftir að landið varð sjálfstætt hóf lettneska ríkisútvarpið að senda út kristilega þætti þar sem sjónum var einkum beint að einingu og boðun og leiðtogar ýmissa kirkjudeilda gátu komið saman. Þessi opinberi vitnisburður um gagnkvæma virðingu, kærleika og gleði styrkti samkirkjuhreyfinguna í Lettlandi. Reynsla þeirra sem mótuðu þessar kristilegu útsendingar í lettneska ríkisútvarpinu varð innblásturinn að þessum hugleiðingum.

 •  Gleði fagnaðarerindisins kallar alla kristna menn til að lifa í anda spádóms Jesaja: ?? (Biblíuþýðing 1981). Við þráum að gleðiboðskapurinn lækni brostin hjörtu okkar og leysi okkur undan því sem heftir oggerir okkur að föngum.
 •  Þegar þjáningar okkar valda okkur sorg kann að vera að okkur skorti kraft til að boðagleðina sem kemur frá Jesú. Samt sem áður er það svo að jafnvel þótt okkur finnist við ófær um að gefa nokkrum nokkuð, þá margfaldar Jesús þann litla vitnisburð sem við þó gefum, bæði í okkur sjálfum og í þeim sem umhverfis okkur eru.
 •  Í guðspjallinu segir Jesús: ?Ég hef elskað yður eins og faðirinn hefur elskað mig. Verið stöðug í elsku minni.? Á þennan hátt uppgötvum við gleði hans í okkur, svo að gleði okkar megi vera stöðug. Þessi gagnkvæmi kærleikur og gagnkvæma gleði er kjarninn í bæn okkar fyrir einingu, líkt og Sálmaskáldið segir: ?Sjá, hversu fagurt og yndislegt það er þegar bræður búa saman.?

Spurningar

 •  Hvað kæfir gleðina í heiminum og í kirkjunum?
 •  Hvað getum við þegið frá öðrum kristnum mönnum svo að gleði Jesú megi vera meðokkur og gera okkur að vottum fagnaðarerindisins?BænGuð kærleikans, lít þú á fúsleik okkar til að þjóna þér, þrátt fyrir andlega fátækt okkar og takmarkaða hæfileika. Fullnægðu dýpstu þörfum hjartans með nærveru þinni. Fyll þú brostin hjörtu okkar með læknandi kærleika þínum svo að við megum elska eins og þú hefur elskað. Veit okkur gjöf einingarinnar svo að við megum þjóna þér með kærleika og deila kærleika þínum með öllum. Þess biðjum við í nafni Drottins vors, Jesú Krists, Sonar þíns. Amen.

Miðvikudagur 20. janúar

DAGUR 3

Vitnisburður um kristilegt samfélag

Jer 31.10-13
Þeir koma og fagna á Síon.

Sálm 122
Biðjið Jerúsalem friðar, að þeir sem elska þig megi búa óhultir.

1Jóh 4.16b-21
Ef einhver segir: ?Ég elska Guð,? en hatar trúsyskin sín er sá lygari.

Jóh 17.20-23
Að þeir verði fullkomlega eitt til þess að heimurinn viti að þú hefur sent mig.

Skýringar

Í rúman áratug hefur Chemin Neuf, alþjóðlegt kaþólskt samfélag með köllun til samkirkjulegs starfs, verið starfandi í Lettlandi og eru þátttakendur bæði lútherskir og kaþólskir. Saman reyna þátttakendur þá gleði sem sprettur af samfélaginu í Kristi, ekki síður en sársaukann af sundrungunni. Til tákns um aðgreininguna er tóm patína og kaleikur sett á altarið meðan á kvöldbænum stendur. Þetta er sú reynsla sem liggur þessari hugleiðingu til grundvallar.

 •  Óeining meðal kristins fólks hindrar boðun fagnaðarerindisins. Heimurinn trúir því ekki að við séum lærisveinar Krists fyrst kærleikurinn okkar í milli er svo ófullkominn. Við finnum fyrir sársauka þessarar aðgreiningar þegar við getum ekki meðtekið saman líkama og blóð Krists í evkaristíunni, sakramenti einingarinnar.
 •  Uppspretta gleði okkar er sameiginlegt líf okkar í Kristi. Með því að lifa lífi okkar í samfélagi dag hvern bjóðum við velkomið kristið fólk sem fylgir ýmsum hefðum, elskum þau, þjónum þeim, biðjum með þeim og færum þeim vitnisburð. Þetta er sú dýrmæta perla sem Heilagur Andi gefur okkur.
 •  Nóttina áður en hann dó bað Jesús fyrir einingu og kærleika meðal okkar. Í dag lyftum við höndum okkar og biðjum með Jesú fyrir einingu kristinna manna. Við biðjum fyrir biskupum, prestum og meðlimum allra kirkna. Við biðjum þess að Heilagur Andi leiði okkur öll á þessari einingarbraut.

Spurningar

 •  Hvaða augum lítum við kristið fólk úr öðrum kirkjum? Erum við reiðubúin að biðjast fyrirgefningar á fordómum í garð þeirra?
 •  Hvað getum við gert hvert um sig til að minnka ágreininginn meðal kristins fólks? BænDrottinn Jesús, sem baðst þess að við mættum öll verða eitt, við biðjum til þín um einingu kristins fólks samkvæmt þínum vilja, samkvæmt þínum leiðum. Megi andi þinn gera okkur kleift að skynja þá þjáningu sem sundrungin veldur, að við sjáum syndir okkar og getum átt von þar sem enga von er að finna. Amen.

Fimmtudagur 21. janúar

DAGUR 4

Prestaþjóð kölluð til að boða fagnaðarerindið

1Mós 17.1-8
Skalt þú Abraham heita því að ég geri þig að ættföður fjölda þjóða.

Sálm 145.8-12
Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur.

Róm 10.14-15
En hvernig eiga menn að geta ákallað þann sem þeir trúa ekki á?

Matt 13.3-9
Sumt féll í góða jörð og bar ávöxt, sumt hundraðfaldan, sumt sextugfaldan og sumt þrítugfaldan.

Skýringar

Þessi hugleiðing var innblásin af framleiðendum Vertikale-sjónvarpsþáttanna um kristileg málefni, sem sýndir voru á sunnudagsmorgnum. Sú áskorun að koma á framfæri kristnum boðskap í ríkissjónvarpi Lettlands kenndi þeim að það er ekki fyrr en við lærum að meta að verðleikum annað kristið fólk sem bræður og systur að við dirfumst að koma Guðs orði á framfæri opinberlega.

 •  Í heimi nútímans flæða orðin meir en nokkru sinni fyrr inn á heimili okkar: ekki lengur aðeins í samræðum okkar, heldur berast þau líka frá sjónvarpi og útvarpi, og nú einnig frá samskiptamiðlum. Þessi orð geta byggt upp en líka brotið niður. Margt af þessu orðaflóði virðist merkingarlaust: afþreying fremur en næring.
 •  Við gætum drukknað í þessu hafi þar sem enga merkingu er að finna. En við höfum heyrt hjálpræðisorð; því hefur verið varpað til okkar líkt og björgunartaug. Það kallar okkur til samfélags og leiðir okkur til einingar með öðrum sem hafa einnig heyrt það. Eitt sinn vorum við ekki lýður, en nú erum við lýður Guðs.
 •  Og það sem meira er, við erum prestasamfélag. Við erum sameinuð öðrum sem hafa þegið Orð hans, og orð okkar eru ekki lengur dropar sem týnast í hafinu. Nú höfum við máttugt Orð að mæla. Sameinuð getum við mælt af krafti: Yeshua ? Guð bjargar.

Spurningar

 •  Hver er sá persónulegi metnaður, samkeppnisandi, falskar ætlanir um annað kristið fólk og gremja í þeirra garð sem hamlar okkur við boðun fagnaðarerindisins?
 •  Hver heyrir hið lífgefandi orð frá okkur? BænDrottinn Jesús, þú sagðir að allir myndu vita að við erum lærisveinar þínir ef við elskum hvert annað. Styrk þú okkur fyrir náð þína, mættum við starfa óþreytandi að sýnilegri einingu kirkju þinnar, svo að fagnaðarboðskapurinn, sem við erum kölluð til að útbreiða, sjáist í öllum okkar orðum og gerðum. Amen.

Föstudagur 22. janúar

DAGUR 5

Samfélag postulanna

Jes 56.6-8
Því að hús mitt skal nefnast bænahús fyrir allar þjóðir.

Sálm 24
Hver fær að stíga upp á fjall Drottins?

Post 2.37-42
Þau ræktu trúlega uppfræðslu postulanna og samfélagið, brotning brauðsins og bænirnar.

Jóh 13.34-35
Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hvert annað.

Skýringar

Samfundir kristinna leiðtoga eru sýnilegt birtingarform samkirkjulífsins í Lettlandi. Leiðtogarnir koma reglulega saman í Gaizins, hæstu hæð Lettlands, og víðar, í fjörutíu stundir til bænahalds og einfaldrar samveru með sameiginlegum máltíðum. Allan þennan samverutíma njóta leiðtogarnir stuðnings leikmanna sem biðja óslitið fyrir þeim og stunda tilbeiðslu. Þessar samkomur endurnýja leiðtogana sem samverkamenn í Kristi. Reynsla stofnenda hins Lettneska bænahúss allra þjóða er innblásturinn að eftirfarandi hugleiðingum.

 •  Boðorð Jesú um að við elskum hvert annað er ekki fræðilegs eðlis. Samfélag okkar um gagnkvæman kærleika verður raunverulegt þegar við söfnumst saman gagngert sem lærisveinar Krists til að eiga saman stund í vináttu og bæn í krafti Andans.
 •  Þeim mun oftar sem kristið fólk, og einkum þó leiðtogar þeirra, mætir Kristi í auðmýkt og af þolinmæði, þeim mun betur gengur okkur að uppgötva Krist hvert í öðru og verðum að sama skapi traustari vitni um konungsríki Guðs.
 •  Stundum getur samkirkjustarfið virst afar flókið. En þó bera gleðilegir samfundir, sameiginleg máltíð, bæn og lofgjörð sannarlega vott um postullegan einfaldleika. Með þessu fylgjum við boðorðinu um að elska hvert annað og segjum með því amen við einingarbæn Krists.

Spurningar

 •  Hver er reynslan af samfundum okkar sem bræðra og systra með kristilegri samveru, sameiginlegum máltíðum og bænum?
 •  Hvers væntum við af biskupum og öðrum kirkjuleiðtogum á vegferðinni í átt til sýnilegrar einingar kirkjunnar? Hvernig getum við hvatt þá og stutt?BænGuð Drottins vors Jesú Krists, Faðir dýrðarinnar, mættir þú veita öllum kristnum mönnum, og einkum þeim sem þú hefur falið leiðsögn kirkju þinnar, anda vísdóms og ráðspeki svo að við sjáum með augum hjartans vonina sem þú hefur kallað okkur til: um einn líkama og einn Anda, einn Drottin, eina trú, eina skírn, einn Guð og Föður sem er yfir og allt um kring og í öllu. Amen.

Laugardagur 23. janúar

DAGUR 6

Heyrið nú þennan draum

1Mós 37.5-8
Heyrið nú hvað mig dreymdi.

Sálm 126
Þá var sem oss dreymdi.

Róm 12.9-13
Verið ástúðleg hvert við annað í bróðurlegum kærleika og keppist um að sýna hvert öðru virðingu.

Jóh 21.25
Öll veröldin mundi ekki rúma þær bækur sem þá yrðu ritaðar.

Skýringar

Sundrung kristinna manna er sársaukafull. Kirkjurnar þjást sakir þess að þær geta ekki sameinast sem ein fjölskylda við borð Drottins; þær þjást sakir metings og vegna sögulegra baráttumála. Ein viðbrögð birtust árið 2005 í samkirkjulegu tímariti sem kallast ?Kas Mus Vieno?? (?Hvað sameinar okkur??). Reynslan af útgáfu þessa tímarits varð innblásturinn að eftirfarandi hugleiðingum.

 •  Jósef dreymdi draum sem var boðskapur frá Guði. En þegar Jósef vildi deila þessum draumi með bræðrum sínum brugðust þeir við með reiði og ofbeldi vegna þess að í drauminum fólst að þeir yrðu að krjúpa fyrir honum. Að endingu hrakti hungursneyð bræðurna til Egyptalands þar sem þeir krupu á kné fyrir Jósef, en í stað þess að þeir færu hjá sér og fyndu til smánar varð þetta stund sátta og náðar.
 •  Líkt og Jósef birtir Jesús okkur sýn, boðskap um lífið í konungsríki Föður hans. Það er sýn einingar. En líkt og bræður Jósefs erum við oft æst og reið og hrædd við þessa sýn og það sem hún virðist fela í sér. Hún krefst þess að við beygjum okkur undir og hlýðum vilja Guðs. Við erum óttaslegin vegna þess sem við kynnum að glata. En sýnin fjallar ekki um glötun heldur snýst hún um það að við eignumst bræður og systur sem við höfum glatað, og endurheimtum fjölskyldu okkar.
 •  Við höfum skrifað fjölmargt um samkirkjuleg efni en sýnina um einingu kristinna manna er ekki að finna í samþykktunum einum saman, þó að þær séu að sönnu mikilvægar. Sú eining sem Guð þráir okkur til handa, sú sýn sem hann birtir okkur, er miklu víðtækari en nokkuð sem við getum tjáð í orðum eða skráð í bækur. Þessi sýn verður að holdgerast í lífi okkar, bænunum og boðunarstarfinu sem við deilum með bræðrum okkar og systrum. En framar öllu birtist hún í kærleikanum sem við auðsýnum hvert öðru.

Spurningar

 •  Hvað merkir það að við leggjum drauma okkar um einingu kristinna manna við fótskör Krists?
 •  Með hvaða hætti kallar sýn Drottins um einingu kirkjurnar eftir endurnýjun og breytingum núá tímum?BænHimneski faðir, veit okkur auðmýkt til að heyra raust þína, að gegna köllun þinni og deila draumi þínum um einingu kirkjunnar. Hjálpa okkur að vera vakandi gagnvart sársauka sundrungarinnar. Megi eldurinn frá hjarta þíns Heilaga Anda tendra loga í hjörtum okkar þar sem aðskilnaðurinn hefur skilið eftir sig steinhjörtu og blása okkur í brjóst sýn einingarinnar í Kristi, eins og hann er einn í þér, svo að heimurinn megi trúa að þú hefur sent hann. Þess biðjum við í Jesú nafni. Amen.

Sunnudagur 24. janúar

DAGUR 7

Vilji til bæna

Jes 62.6-7
Ég setti varðmenn á múra þína, Jerúsalem, þeir mega aldrei þagna, hvorki dag né nótt.

Sálm 100
Öll veröldin fagni fyrir Drottni. Þjónið Drottni með gleði.

1Pét 4.7b-10
Verið gætin og algáð til bæna.

Jóh 4.4-14
Vatnið, sem ég gef, verður að lind, sem streymir fram til eilífs lífs.

Skýringar

Reynslan af sameiginlegu bænahaldi á hverjum hinna átta daga Bænaviku fyrir einingu kristinna manna hjálpaði íbúum smábæjarins Madona að nálgast hver annan í vináttu. Sérstakur ávöxtur þessa er opnun samkirkjulegrar bænakapellu í miðbænum, en þar er að finna þætti úr hefðum lútherstrúarmanna, kaþólskra og orþódoxa. Þar kemur kristið fólk í Modena saman til óslitins bænahalds. Þessi reynsla er bakgrunnur eftirfarandi hugleiðingar.

 •  Svo lengi sem þjóð Guðs er klofin og kristið fólk aðskilið hvert frá öðru erum við líkt og Jesús í Samaríu, útlendingar í eigin landi, án öryggis, án endurnæringar og án hvíldarstaðar.
 •  Ísraelsmenn þráðu öruggan stað þar sem þeir gætu tignað Drottin. Jesaja segir okkur frá máttarverki Drottins: Hann skipaði varðmenn yfir múra Jerúsalems svo að þjóð hans gæti tignað hann óhult dag sem nótt.
 •  Í bænavikunni verða kirkjur okkar og kapellur að öruggum stöðum hvíldar og endurnæringar þar sem fólk kemur saman til bænahalds. Áskorun þessarar viku felst í því að skapa fleiri staði og tíma þar sem bænin nýtur verndar, vegna þess að þegar við biðjum saman verðum við ein þjóð.

Spurningar

 •  Hvernig getum við stuðlað að gagnkvæmri gestrisni meðal sókna og trúfélaga í okkar heimabyggð?
 •  Er til sá staður í okkar byggð þar sem kristið fólk sem aðhyllast mismunandi hefðir getur komið saman til bæna? Ef svo er ekki, getum við þá hjálpað til við að skapa slíkan stað?BænDrottinn Jesús, þú baðst postula þína að vaka með þér og biðja með þér. Mættum við bjóða heiminum frátekinn tíma og staði endurnæringar og friðar svo að við getum öðlast meiri þekkingu á þér með sameiginlegu bænahaldi með öðru kristnu fólki. Amen.

Mánudagur 25. janúar

DAGUR 8

Hjörtun brenna af einingarþrá

Jes 52.7-9
Hversu yndislegir eru á fjöllunum fætur fagnaðarboðans sem friðinn kunngjörir, gleðitíðindin flytur.

Sálm 30
Þú breyttir gráti mínum í gleðidans.

Kól 1.27-29
Hvílíkan dýrðarríkdóm heiðnar þjóðir eiga í þessum leyndardómi sem er Kristur meðal yðar, von dýrðarinnar.

Lúk 24.13-36
Hann byrjaði á Móse og öllum spámönnunum og útlagði fyrir þeim það sem um hann er ritað í öllum ritningunum.

Skýringar

Mismunandi kirkjur í Lettlandi hafa getað starfað saman að útbreiðslu fagnaðarboðskaparins með því að nota Alfa-námskeiðið sem þróað var hjá Anglíkönum í Kirkju heilagrar þrenningar í Brompton í London. Þeir Lettar sem hafa öðlast trú fyrir þetta námskeið eru opnir fyrir frekara námi og að þiggja gjafir frá öðrum kristnum samfélögum. Þessi reynsla var innblástur eftirfarandi hugleiðinga.

 •  Lærisveinarnir yfirgáfu samfélag sitt og fóru fullir vonbrigða frá Jerúsalem áleiðis til Emmaus, en þeir höfðu misst vonina um að Jesús væri Messías. Þetta var ferðalag aðskilnaðar og einangrunar.
 •  Aftur á móti sneru þeir aftur til Jerúsalem fullir vonar með boðskap fagnaðarerindisins á vörum. Það var þessi upprisuboðskapur sem sendi þá aftur heim í kjarna samfélags síns og til samneytis við félaga sína.
 •  Kristið fólk reynir svo oft að útbreiða fagnaðarboðskapinn í anda samkeppni og vonast eftir því að fylla sínar eigin kirkjur. Metnaðurinn ber sigurorð af þránni til að boða öðrum boðskap fagnaðarerindisins um líf. Raunverulegt trúboð felst í ferðalaginu frá Emmaus til Jerúsalem, ferðalagi frá einangrun til einingar.

Spurningar

 •  Hvaða vonbrigði hafa einangrað okkur frá öðrum?
 •  Hvaða gjafir (frumkvæði, aðferðir og áætlanir) getum við þegið frá öðrum kristnumsamfélögum?BænDrottinn Jesús, þú lætur hjörtu okkar brenna hið innra og sendir okkur aftur út á veginn til bræðra okkar og systra, með fagnaðarboðskapinn á vörum. Hjálpa þú okkur að sjá að von og hlýðni við boðorð þín leiðir alltaf til aukinnar einingar fólks þíns. Amen.

Þorkell Örn Ólason þýddi úr ensku
Yfirlestur: Guðmundur Guðmundsson og María Ágústsdóttir