Takk Guð fyrir að ég er eins og ég er...

Hluti af listaverki Leifs Breiðfjörð í norðurglugga Glerárkirkju

Prédikun síðasta sunnudags fjallaði um faríseann og tollheimtumanninn. Í henni talaði ég um ýmsar aðstæður þegar við hugsum: Takk Guð fyrir að ég er ekki svona..., nema auðvitað þau okkar sem eru einmitt svona...

Við horfum á þau þar sem þau standa í röð. Niðurlút, sum með hettu dregna yfir höfuðið, þau vilja ekki þekkjast, skömmin er svo mikil. Skömmin yfir því að þurfa að standa í röð til að fá matarpoka. Og við hugsum þegar við sjáum mynd af þeim, eða frétt umþau í sjónvarpinu: Takk, Guð fyrir að ég er ekki eins og þetta fólk. Nema að sjálfsögðu þau okkar sem voru í röðinni...

Við heyrum sögu þeirra. Sögu um það hvernig þau voru lögð í einelti, hvernig þau voru kölluð skrímsli, ógeð, að þau ættu ekki skilið að lifa, að þau ættu að gera heiminum þann greiða að drepa sig... Við höfum heyrt um sársaukann, einmanaleikann, brotnu sjálfsmyndina, hvernig þau bogna meir og meir inn í sig, þar til þau standa ekki undir  sér lengur, og sum ganga alla leið og ,,gera heiminum greiða” Og við hugsum, takk Guð fyrir að ég hef ekki lent í þessu. Eða, takk Guð fyrir að ég hef aldrei lagt neinn í einelti. Nema að sjálfsögðu þau okkar sem þekkja þetta af eigin raun...

Við tölum um þær... Stelpurnar sem eru svo miklir kjánar að láta nauðga sér. Sem eru svo miklar druslur að þær kalla yfir sig þessi vandræði. Þær geta sjálfum sér um kennt, voru vitlaust klæddar, gáfu óljós skilaboð, settu engin mörk, voru of drukknar, voru á vitlausum stað á vitlausum tíma...  Og við hugsum, Takk Guð fyrir að ég er ekki svona vitlaus... Nema að sjálfsögðu þau okkar sem þekkjum nauðgun af eigin raun.

Við tölum um þá. Nauðgarana sem eru svo mikil skrímsli, svo mikil ógeð, að láta sér detta annað eins í hug og að nauðga annarri manneskju. Og um leið fjarlægjum við okkur frá þeim. Við þekkjum að sjálfsögðu engin skrímsli, enginn sem við þekkjum hefur svo ógeðslegan hugsunarhátt að vilja brjóta svona hryllilega gegn annarri manneskju. Og við hugsum, Takk Guð fyrir að ég er ekki skrímsli...Nema að sjálfsögðu þau okkar sem þekkja einhvern... og elska jafnvel... einhvern sem hefur nauðgað...

Við horfum með eftirvæntingu upp götuna.. Þarna birtast litríku fánarnir! Og fólkið gengur stolt niður götuna í fylkingu. Mömmur og pabbar með börnin sín undir fánum regnbogans. Alls kyns skrautlegir vagnar og tónlistin dunar... Allir eru skreyttir blómum í öllum regnbogans litum, bæði göngufólk og áhorfendur. Og við sem horfum á hugsum: Takk Guð fyrir fjölbreytileika mannlífsins. Og göngufólkið hugsar: Takk Guð fyrir að ég er eins og ég er...

Jesús segir dæmisöguna um Faríseann og Tollheimtumanninn þeim sem treystu því að þeir væru réttlátir en fyrirlitu aðra. Jesús segir okkur þessa dæmisögu. Við getum sett okkur í spor Faríseans. Sem stígur fram í eigin sjálfsupphafningu, sannfærður um að hann sé betri en tollheimtumaðurinn. En við getum líka sett okkur í spor tollheimtumannsins. Kannski upplifum við okkur sett út fyrir af samfélaginu. Tilheyrum minnihlutahópi. Eða þá að við höfum gert eitthvað sem fólk dæmir okkur fyrir. Og það kemur fyrir okkur öll einhvern tíma að við gerum mistök. Eitthvað sem við skömmumst okkar fyrir, eitthvað sem við sjáum eftir, gerumst sek um dómgreindarbrest, brjótum jafnvel harkalega gagnvart annarri  manneskju. Stundum dæmir samviskan ein, stundum bæði samviska og samfélag. En Jesús bendir okkur á að ekkert er svart eða hvítt. Hlutirnir eru aldrei alveg eins og við höldum að þeir séu. En Jesús bendir okkur líka  á að öll eigum við aðgang að miskunn Guðs. Öll njótum við kærleika hans og náðar.

Tollheimtumaðurinn fór réttlættur heim, en faríseinn ekki. Þannig snýr Jesús öllu á hvolf fyrir okkur. Það er gott fyrir okkur að muna það, næst þegar við hugsum, Takk Guð fyrir að ég er ekki svona...

Einnig birt á trú.is.