Norska kirkjan fjölgar djáknastöðum

Kirkjuþing norsku kirkjunnar samþykkti í apríl 2011 að stórfjölga djáknastöðum. Stefnt er að því að árið 2015 verði að minnsta kosti einn djákni starfandi í hverju prófastsdæmi. Ekki er gert ráð fyrir því að sóknargjöldin standi ein undir þessari breytingu, heldur á að nota aðra fjármuni norsku kirkjunnar til þess að gera þessa breytingu að veruleika. Til lengri tíma er stefnt að því að hver sókn hafi sinn djákna. Á Íslandi er staðan önnur. Starfandi djáknar á landinu eru samtals 18 og þar af tæplega helmingur í safnaðarstarfi, hinir á stofnunum. Glerárkirkja er ein fárra kirkna með djákna í 100% starfshlutfalli.

Í frétt um þetta á vef norsku kirkjunnar kemur fram að nú sé það sameiginlegur skilningur allra í norsku kirkjunni að díakonían sé ekki eitthvað sem kirkjan velur að sinna til viðbótar við helstu störf kirkjunnar, heldur er nú litið á díakoníuna, þ.e. kærleiks- og líknarþjónustuna sem órjúfanlegan hluta af kjarnastarfsemi hvers safnaðar. Þetta er í stíl við þær ályktanir og skjöl sem Lúterska heimssambandið hefur sent frá sér undanfarin ár, m.a. í skjalinu Þjónusta í síbreytilegu samhengi sem sagt var frá hér á glerarkirkja.is í gær.

Þingsályktunin sem samþykkt var samhljóða um djáknaþjónustuna innan ramma hinnar vígðu þjónustu kirkjunnar hljóðaði svona í lauslegri þýðingu:

1. Djáknaþjónustan í norsku kirkjunni er sjálfsögð og nauðsynleg þjónusta, staðsett í þeirri umgjörð sem heildarþjónusta kirkjunnar skapar.
2. Djáknaþjónustan byggir á eigin guðfræðilegum grunni. Lagður er sá skilningur í djáknaþjónustuna að hún sé fyrst og fremst líknarþjónusta.
3. Vígsla er forsenda djáknaþjónustunnar. Kirkjuþing styður þá tillögu Biskupafundar að þegar vígður djákni tekur þátt í helgihaldi beri hann stólu á ská. Kirkjuþing hvetur Biskupafund til að innleiða notkun skástólunnar eins fljótt og hægt er.
4. Vígsluskilningur norsku kirkjunnar er sá að vígt er til ákveðinnar þjónustu. Því þarf sá sem færir sig úr einni þjónustu í aðra að vígjast að nýju.
5. Til að norska kirkjan nái að framfylgja þeirri stefnumörkun um djáknaþjónustuna sem sett var fram í máli nr. 06 árið 2007 er nauðsynlegt að fjölga djáknastöðum.
a. Kirkjuþingið væntir þess að geta fært til fjármuni frá Stórþinginu til þess að fjölga djáknastöðum stórlega (Soria Moria II).
b. Stefnt er að því að í hverju prestakalli verði að minnsta kosti einn djákni starfandi árið 2015. Í stórum prestaköllum (mannfjöldi eða víðfemt svæði) er stefnt að því að djáknar verði fleiri en það sama ár.
c. Til lengri tíma litið skal stefnt að því að hver sókn hafi eigin djákna eða aðgang að djáknaþjónustu.