Neyð og óréttlæti kalla á aðgerðir

Óháð og sjálfstætt vinnur Hjálparstarf kirkjunnar í þágu þeirra sem líða fátækt og óréttlæti - utanlands og innan. Að hjálpa til sjálfshjálpar og tala máli fátækra og undirokaðra er alltaf verkefni dagsins. Að draga fram kjör þeirra sem eiga sér ekki málsvara og ýta á aðgerðir sem breyta lífsmöguleikum þeirra, er markmið okkar. Þrúgandi neyð í sinni margslungnu mynd, heima og heiman, blasir við okkur. Með aðgerðum okkar viljum við mæta bæði þorpsbúanum á þurrkasvæðum Eþíópíu eða þeim sem hefur misst fótana á Íslandi. Við vinnum MEÐ skjólstæðingum að lausn mála þeirra. Við virkjum þá til að ná árangri - með stuðningi okkar. Og hver erum við? Hvorki fugl né fiskur án framlaga almennings, fyrirtækja og stjórnvalda sem gera okkur kleift að nýta sérþekkingu okkar til árangurs á viðkvæmu og sérhæfðu sviði. Með þeim stuðningi - erum við farvegur þinn til árangursríkra verkefna. Þú getur lesið meira um starfið á heimasíðunni okkar: www.help.is.