Mannabreytingar í Glerárkirkju

Sunna Kristrún Gunnlaugsdóttir og Eydís Ösp Eyþórsdóttir
Sunna Kristrún Gunnlaugsdóttir og Eydís Ösp Eyþórsdóttir

Nú um mánaðarmótin verða breytingar í starfsmannahóp kirkjunnar. Sunna Kristrún Gunnlaugsdóttir djákni sagði stöðu sinni lausri í byrjun sumars eftir að hafa starfað í Glerárkirkju í  6 ár, en hún hóf störf 1. ágúst 2014. Sunna hefur sinnt fjölbreyttu starfi hér í kirkjunni og meðal annars gegnt lykilhlutverki í því metnaðarfulla barna- og unglingastarfi sem við bjóðum upp á. Það er sárt að horfa á eftir góðri samstarfskonu en við í Glerárkirkju óskum henni velfarnaðar á nýjum starfsvettvangi sem deildarstjóri á leikskólanum Kirkjugerði í Vestmannaeyjum.

Í sumar auglýstum við eftir verkefnastjóra fræðslu- og fjölskyldumála hér við kirkjuna. Alls bárust 5 umsóknir um stöðuna og var djáknakandídatinn Eydís Ösp Eyþórsdóttir valin í starfið. Eydís hefur undanfarið starfað sem svæðisfulltrúi KFUM&K á Norðurlandi auk þess sem hún leysti Sunnu Kristrúnu af einn vetur á meðan hún var í fæðingarorlofi. Eydís þekkir því vel til starfsins í sókninni og við samstarfsfólkið hlökkum til komandi vetrar.