Leiðarsteinar til farsælla og betra lífs

Glerárkirkja, í samstarfi við ráðgjafa- og sálgæslusetrið HEILD, stendur fyrir námskeiðinu LEIÐARSTEINAR TIL FARSÆLLA OG BETRA LÍFS, þriðjudagana 15. og 22. maí næstkomandi. Námskeiðið er þróað með aðferðafræði tólf sporanna að leiðarljósi - andlegu ferðalagi - með kenningum úr tilvistarfræðum (existentialism), sálfræði (HAM) og fl. Jafnframt eru kynntar aðferðir íhugunarfræðanna. Skráning og nánari upplýsingar um námskeiðið er hjá Pétri Björgvini, djákna í Glerárkirkju, í síma 464 8807 / 864 8451. Skráningu lýkur 8. maí.

Hér fyrir neðan má finna nánari upplýsingar um HEILD og námskeiðið LEIÐARSTEINAR:


Heild  ráðgjafa- og sálgæslusetur leitast við að veita von og kraft í leit  einstaklingsins að tilgangi í lífinu.


Heild var stofnað formlega í september 2011 af djáknunum Guðrúnu Kristínu Þórsdóttur og Kristínu Sigríði Garðarsdóttur. Heild stendur fyrir ákveðinni sýn á manneskjuna sem anda, sál og líkama, en jafnframt hluta af stærri heild, svo sem samfélaginu og fjölskyldunni.

Nálgun Heildar byggir á því að leiðbeina einstaklingum inn á lífsvettvang sem veitir mesta farsæld í lífinu. Áhersla er á sálgæslu, ráðgjöf og leiðsögn aðallega fyrir konur, sem eru að ganga í gegnum erfiða lífsreynslu og breytingar í lífi sínu. Boðið er upp á persónulega þjónustu með einstaklingsviðtölum, fræðslu og námskeiðum.

Framkvæmdaaðilar:
Guðrún Kr., er sjúkraliði og með B.A. próf í sálarfræði og diplóma í hugrænum atferlisfræðum. Hún lauk prófi í djáknafræðum árið 1998 og vígðist til djákna í byrjun árs 1999. Síðan þá hefur Guðrún starfað við djáknaþjónustu meðal aldraðra, fatlaðra og leitt 12 sporin innan kirkjunnar í meira en tíu ár. Guðrún er jafnframt löggiltur leiðsögumaður.

Kristín S. er vímuefnaráðgjafi og hefur starfað sem ráðgjafi og meðferðaraðili í um 5 ár. Hún lauk námi í guðfræði og vígðist til djákna 2007 og hefur unnið að verkefnum tengdum sálgæslu. Kristín hefur jafnframt lokið námi sem dáleiðari (clinical hypnotherapist), Dip.Ch.,FaFDT  hjá John Sellars (The hypnosis centre International School of Clinical hypnosis).   

Leiðarsteinar – námskeið:
Á námskeiðinu er lögð áhersla á að veita þátttakendum verkfæri sem hjálpa þeim að eignast von og kraft til að finna tilgang, gleði og sátt í lífinu. Námskeiðið kallast: ,,Leiðarsteinar til farsælla og betra lífs''  og eru  byggt þannig upp, að það hvetur einstaklinga til að vinna úr erfiðum tilfinningum, áföllum og vanlíðan.

Námskeiðið er þróað með aðferðafræði tólf sporanna að leiðarljósi, andlegu ferðalagi, með kenningum úr tilvistarfræðunum (existentialism), sálarfræðunum (HAM) og geðlæknis- og ráðgjafafræðunum. Jafnframt eru kynntar aðferðir íhugunarfræðanna.

Vinnuaðferð Heildar byggja á sporunum tólf til farsældar, sem unnin eru út frá 12 sporum AA samtakanna, Charlotte Kasl, sálfræðings og klínískum fíkniráðgjafi og út frá tilgangsfræðum Victor E. Frankl læknis, sálkönnuðar og heimspekings.

Fjórir leiðarsteinar
Leiðarsteinunum fjórum er skipt niður þannig að unnið er fyrst með viðurkenninguna (spor 1,2 og3), síðan umbreytinguna eða viljann til breytinga (spor 4,5 og 6), næst er farið í uppgjörið og ábyrgðina (spor 7,8 og 9) og að lokum kemur sáttin og að ná jafnvægi í lífinu (spor 10, 11 og 12).

Viðurkenning:
•    Ég viðurkenni að ég missti stjórn á lífi mínu og upplifði tilgangsleysi og tómleika.
•    Ég trúi því að æðri máttur geti hjálpað mér að bera meiri ábyrgð á lífi mínu og læra að byggja ekki sjálfsöryggi mitt á öðru fólki, hlutum eða efnum.
•    Ég tek þá ákvörðun að treysta æðri mætti og  láta vilja minn og líf vera í samræmi við skilning minn á henni (honum).

Umbreyting:
•    Ég horfist í augu við sjálfa mig, sjúkdóm minn og meðvirkni.
•    Ég viðurkenni fúslega og af hugrekki mistök mín og vandamál í lífinu.
•    Ég þakka og fagna þeim styrk og krafti sem æðri máttur hefur veitt mér til að takast á við hugsanir mínar og hegðun.

Uppgjör:
•    Ég er tilbúin að láta af hegðun/hugsunum sem hindra mig í að elska sjálfa mig og aðra. Ég öðlast traust á eigin dómgreind  og viðurkenni fúslega breyskleika mína og mistök gagnvart sjálfum mér og öðrum.
•    Ég geri mér grein fyrir að ég ber ábyrgð á eigin lífi. Ég tileinka mér nýjan lífsstíl og finn tilganginn í lífi mínu.

Sátt:
•    Ég styrki samband mitt við sjálfa mig og æðri mátt og öðlast styrk  til að viðhalda framförum, bata og sátt.
•    Ég er minnug þess að farsæld mín er fólgin í því að ég beri umhyggju og virðingu fyrir sjálfri mér og öðrum og minni innri rödd.
•    Ég er mikilvæg manneskja í sátt við sjálfa mig og aðra, auk alls sem lifir.

Leiðarsteinunum er yfirleitt skipt niður á fjögur skipti en á Akureyri yrði þeim skipt í tvennt þ.e.a.s. farið yrði í gegnum viðurkenninguna og viljann til breytinga þann 15. maí frá kl. 17:00 til kl. 22:00 og síðan viku síðar, eða 22. maí á sama tíma, yrði unnið með uppgjörið, sáttina og jafnvægið.

Lágmarksþátttaka á námskeiðinu eru sjö en æskilegur fjöldi er um níu manns.

Námskeiðið kostar kr. 15,000 á mann og þá er innifalið eitt persónulegt viðtal sem yrði í boð þriðjudaginn 22. maí frá hádegi og fram að námskeiði kl. 17:00.

Skráning fer fram hjá Glerárkirkju og er síðasti skráningadagur er 8. maí 2012.

HEILD er á Facebook: https://www.facebook.com/heild.is