Kristur kemur

"Sjá, mærin mun þunguð verða og son ala. Nafn hans mun vera Immanúel". Það þýðir: Guð er með oss. (Matt.1:23) Hér á eftir má lesa aðventuhugleiðingu sr. Gunnlaugs Garðarssonar, sóknarprests úr safnaðarblaði desembermánaðar. Orðið aðventa er komið úr latínu og merkir koma. Það tímabil kirkjuársins sem nú er gengið í garð hlaut þetta nafn til að minna á að okkur ber að greiða götu fagnaðarerindisins hér í heimi. Hver ný kynslóð þarf að fá að heyra gleðitíðindin um björgun Guðs, sem veitt er fyrir Jesú Krist. Hver ný kynslóð þarf að heyra náðarboðskapinn um frelsarann sem forðum fæddist í Betlehem, um lausnarann sem er hinn sanni konungur mannkyns. Kristur er sá sem er, var og koma mun í mætti og dýrð. Ljósið sem hann ber með sér er í senn ljós sannleika og elsku. Ekkert fær dulist þessu ljósi og þess vegna fylgir því dómur, en þeim sem ganga Guði á hönd er sá dómur í senn hreinsun, blessun og björgun.

Framundan er jólahátíðin. Hún er þorra Íslendinga hjartfólgin og kær. Við eigum flest bjartar og hlýjar minningar af gleðistundum um jól í faðmi fjölskyldu og ástvina. Hjartað á bak við hlýjuna og birtuna sem gefur því öllu merkingu og kraft er sá boðskapur að algóður Guð, höfundur lífs og heims, elskar mannanna börn og hann vill vitja okkar og verða hluti af lífi okkar og tilveru. Öll þráum við hamingjustundir á jólum. Höfum því fyrirhyggju og stillum væntingum í hóf. Spyrjum ekki: ,,Hvað fæ ég út úr jólunum". Spyrjum frekar spurninga eins og ,,Hverjum og hvernig ætla ég að leitast við að vera gleði-gjafi á komandi hátíð"?

Boðskapur trúarinnar á að hjálpa okkur að ná réttum áttum um hvað það er sem varðar mestu og síðan að leggja þann rétta grundvöll sem þarf til þess að hátíðin góða verði í sannleika gleðirík og björt.

Nú sem fyrr segir lausnarinn góði, Drottinn dýrðarinnar, við hvern þann sem eyru hefur til að heyra: ,,Sjá, ég stend við dyrnar og kný á. Ef einhver heyrir raust mína og lýkur upp dyrunum, þá mun ég fara inn til hans og neyta kvöldverðar með honum og hann með mér" (Op. 3:20). Megi andsvar okkar vera líkt og í aðventusálminum góða:

Ó, kom minn Jesús, kom sem fyrst,
ó, kom og mér í brjósti gist,
ó, kom þú, segir sála mín,
ó, seg við mig: Ég kem til þín.
Helgi Hálfdánarson, Sálmabók 59.8

Guð gefi þér og fjölskyldu þinni heilnæma aðventu og gleðirík jól.

Gunnlaugur Garðarsson,
sóknarprestur