Jólasöfnun Hjálparstarfs kirkjunnar er hafin

Fólk sem ekki hefur aðgang að vatni til drykkjar, matargerðar og til að gæta hreinlætis er útsett fyrir lífshættulegum sjúkdómum sem berast með óhreinu vatni eins og kóleru og öðrum niðurgangspestum.  Með aðgengi að hreinu vatni hefur allt líf möguleika á að vaxa og dafna. Fæðan verður næringarríkari með fjölbreyttari jarðyrkju og búfjárrækt. Hreinlæti eykst og það leiðir aftur til aukins heilbrigðis. Börn geta farið í skólann í stað þess að sækja vatn um langan veg og konum gefst tími til að afla tekna með því að selja afurðir. Allt leiðir þetta til virkari þátttöku fólks í samfélaginu og til sjálfbærrar þróunar samfélaga. 

Hreint vatn

Stærsti þátturinn í verkefnum Hjálparstarfs kirkjunnar í Úganda og Eþíópíu er að byggja brunna, grafa vatnsþrær og reisa vatnssöfnunartanka. Þannig tryggjum við fólki aðgang að hreinu vatni. Markmið Hjálparstarfsins er að létta undir með fólki sem býr við fátækt og efla virðingu fyrir mannréttindum þeirra. Við höfum að leiðarljósi að starfið leiði til sjálfshjálpar, virkni og sjálfbærrar þróunar í samfélögunum sem við störfum með. 

Hér má sjá fræðsluefni um verkefni Hjálparstarfsins í Eþíópíu (myndband á íslensku frá 2015): https://www.youtube.com/watch?v=fDGVSUhkV4s&feature=youtu.be

Yfirskrift söfnunarinnar er Hreint vatn breytir öllu. Send er valgreiðsla að upphæð 2.500 krónur í heimabanka landsmanna. Sjötíu og tvær greiddar valgreiðslur eða 180.000 krónur duga fyrir brunni sem sem gefur hreint vatn um langa framtíð. 

Einnig er hægt að:

hringja í söfnunarsíma 907 2003 (2.500 kr.)
gefa framlag á framlag.is
leggja inn á söfnunarreikning: 0334-26-50886 kt. 450670-0499

Nánari upplýsingar:  Kristín Ólafsdóttir, fræðslu- og upplýsingafulltrúi, í síma            528 4406 / 6155563 kristin@help.is