Jólaguðspjallið til sýnis

Á miðöldum tíðkaðist að búa til litlar styttur í klaustrum sem stillt var upp í kirkjum yfir jól þar sem líta mátti Maríu, Jósef, vitringa og hirða við jötu Jesúbarnsins. Með tilkomu betri föndurefna færðist siðurinn inn á heimilin. Í upphafi 19. aldar tók einnig að bera á sveigjanlegum brúðum. Þær hafa m.a. þann eiginleika að unnt er að setja brúðurnar í nýjar stellingar fyrir hvert atriði sögunnar. Áhorfendur, hvort heldur eru börn eða fullorðnir, upplifa sögurnar þannig á lifandi og persónulegan hátt og oft opnast ný sýn á Biblíutextann, því hægt er að gefa viðbrögð sögupersónanna svo vel til kynna með notkun þessara brúða sem kalla má biblíubrúður.

Í Glerárkirkju á Akureyri hefur slíkum bibliubrúðum verið stillt upp í formi jólaguðspjallsins, en það er gert annað hvort ár í Glerárkirkju. Þar með gefst kirkjugestum kostur á að virða fyrir sér gistihúseigandann, fjárhirðana á Betlehemsvöllum, vitringa, engilinn og að sjálfsögðu Maríu, Jósef og Jesúbarnið. Þá nýtast brúðurnar einstaklega vel við frásögn á jólaguðspjallinu þegar hópar leikskóla- og grunnskólabarna heimsækja kirkjuna á aðventu.

Biblíubrúður - Höfundur Regína B. Þorsteinsson

Með notkun á biblíubrúðum opnast spennandi leið til að segja sögur úr Biblíunni og auka með þeim myndræna túlkun sagnanna. Fimm stærðir eru af brúðum, allt frá kornabörnum til fullorðinna, en þær stærstu eru 28 sentimetra háar og standa á blýfótum. Beinagrindin er sveigjanlegur þráður sem svo er "holdi klæddur" ef svo má að orði komast og að lokum er svo saumaður fatnaður á brúðurnar í samræmi við klæðnað sem tíðkaðist á tímum Biblíunnar.

Brúðurnar í Glerárkirkju eru allar eftir Regínu B. Þorsteinsson, hjúkrunarfræðing. Regína sótti námskeið í brúðugerðinni í Suður-Þýskalandi á sínum tíma, en hún hafði umsjón með sunnudagaskóla í heimabæ sínum og fannst spennandi að segja börnunum sögur úr Biblíunni með aðstoð brúðanna. Biblíubrúðunum er ætlað að örva hugsun áhorfendans og dýpka skilning hans á sögunum. Með aðstoð þeirra er hægt að segja sögurnar á þann hátt að börn, en einnig fullorðnir, skilji betur ýmislegt sem fyrir kemur í daglegu lífi nútímans.

Nokkur námskeið hafa verið haldin hér á landi í gerð biblíubrúða. Þannig sóttu til dæmis kvenfélagskonur úr Akureyrarkirkju slík námskeið og gáfu kirkjunnar brúðurnar og því er til um tylft af brúðum í Akureyrarkirkju, en alls má ætla að um 50 biblíubrúður séu í notkun hérlendis. Regína er viðurkenndur leiðbeinandi í gerð biblíubrúða en í Evrópu eru tvær megintegundir af slíkum brúðum og hefur Regína leyfi til námskeiðahalds frá ABF í Þýskalandi (Arbeitsgemeinschaft Biblische Figuren e.V. / www.abf-ev.de ).

Þá hafa komið út á hjá Skálholtsútgáfunni fjórar flettibiblíur með myndum af uppstilltum biblíubrúðum. Þar með gefst spennandi kostur til að segja sögur biblíunnar. Fyrst er til dæmis horft á eina biblíusögu eins og hún er sögð með brúðunum í viðkomandi flettibiblíu (einnig fáanleg á rafrænu formi) en síðan er ein eða fleiri brúður notaðar til að dýpka söguna enn frekar. Gaman er að fylgjast með andlitum barna og foreldra í sunnudagaskólanum þegar brúðan sem er á myndinni ,,stígur út úr bókinni“.

Skoða má myndir af biblíubrúðunum á flickr-vef Péturs Björgvins.