Innsetningarprédikun

Fh. sr. Sindri Geir, sr. Stefanía og sr. Jón Ármann prófastur
Fh. sr. Sindri Geir, sr. Stefanía og sr. Jón Ármann prófastur

Sunnudaginn 16. maí var sr. Sindri Geir Óskarsson formlega settur í embætti sem sóknarprestur Glerárkirkju.
Hér er innsetningarprédikun sr. Sindra.

Náð sé með yður og friður frá Guði skapara og drottni Jesú Kristi – amen.

Það er rúmt ár síðan ég hóf störf við Glerárkirkju – og það var meðal fyrstu verka hér að læsa kirkjunni og aflýsa öllu starfi, því fyrsta bylgja covid reið yfir í sömu viku og ég byrjaði. Þannig að það hefur gengið svona upp og ofan hjá okkur hér – og lærdómsríkt að mæta til starfa fullur af starfsorku og hugmyndum en þurfa að vera á bremsunni. Þetta ár hér í Glerárkirkju hefur kallað á mikla þjálfun í æðruleysi og satt best að segja get ég horft á þetta ár með ákveðnu þakklæti fyrir það sem það hefur kennt mér, um mig og um kirkjuna.

Forveri minn í starfi sagði að tvisvar hefðu prestar leyfi til að hafa athyglina á sjálfum sér í prédikun, þegar þeir eru settir í embætti og þegar þeir kveðja söfnuðinn.

Svo ég tala kannski aðeins um mig – en mest langar mig að tala um kirkjuna.

Hvað kirkjan er fyrir mér og hvaða vonir ég hef fyrir framtíð kirkjunnar hér í þorpinu.

Því samfélagið okkar breytist hratt og ef við vitum ekki fyrir hvað við stöndum, eða hvert við viljum stefna þá er sú hætta aldrei langt undan að við föllum úr takti við samfélagið, eða reynum um of að þóknast samfélaginu.

Að við annarsvegar höldum of fast í fortíðina, setjum okkur jafnvel á siðferðislegan stall og dæmum samfélagið fyrir að vera ekki eins og við myndum vilja að það væri.

Eða þá að við verðum eins og kökuskraut í samfélaginu, sem er dregið fram á hátíðis stundum, en erum ekkert nema útlitið og þorum ekkert að segja eða gera sem máli skiptir.

Þessar hættur geta snert allt okkar starf, barnastarfið, sunnudagaskólann, fræðsluna, guðsþjónusturnar og athafnir. Við megum ekki gleyma því að við erum kirkja – samfélag í kringum ákveðinn boðskap og lífssýn, samfélag sem hefur það traust til æðri máttarvalda að við trúum því að við séum leidd áfram. Samfélag sem leyfir lífi og orðum Jesú að vera kjölfestan sín þegar við mætum verkefnum hversdagsins og lifum okkar lífi.

Og verkefnið okkar sem störfum hér í kirkjunni er náttúrulega fyrst og fremst að gera boðskap trúarinnar sýnilegan, skiljanlegan og aðgengilegan, bæði í orði og verki. Að næra andlegt líf þeirra sem hingað koma og sýna það hvernig trúin hefur áhrif á lífið okkar.

Því trúin er ekki bara einkamál. Sá boðskapur sem drífur kirkjuna áfram, á að gefa okkur kjark og kraft til að reyna að hreyfa samfélagið.

Jesús sagði vinum sínum vissulega að þegar þeir biðji, eigi þeir að koma sér fyrir í kyrrð og einrúmi til að rækta sambandið við guðdóminn – en, að svo ættu þeir að fara út í samfélagið til að þjóna því. Kirkjan á að vera þátttakandi í því að bæta samfélagið og gera heilt það sem er brotið

Og því er það hlutverk kirkjunnar að styðja þau sem standa höllum fæti, því er það hlutverk kirkjunnar að mæta fólki í sorg, fólki sem er að ganga í gegnum erfiðleika. Og – því er það hlutverk kirkjunnar að tala fyrir réttlæti, friði, frelsi og mannréttindum. Lyfta upp hógværð, nægjusemi og þakklæti.

 

En eins og ég segi, þá þurfum við að gera það án þess að setja okkur í dómarasæti – og það getur alveg verið vandasamt. En við sjáum það hér á Íslandi, í Skandinavíu og í þýskalandi hverju þessi áhersla Lúthersku kirkjunnar, sem við tilheyrum, á að tala boðskap réttlætis og náungakærleiks inn í samfélagið – hefur skilað. Því í þessum löndum hefur þessi boðun haft áhrif á menninguna, félagskerfið og heilbrigðiskerfið, að við hugum að náunganum, að við hugum að heildinni en festumst ekki í einstaklingshyggju – þessi áhrif hafa skilað okkur velferðarkerfi sem þrátt fyrir að vera ekki fullkomið, setur mannúð ofar gróðasjónarmiðum. Það er vegna áhrifa trúarinnar og kirkjunnar sem mótaði samfélagið.

Og vonin mín er sú að jákvæð áhrif kirkjunnar sé ekki bara eitthvað sem við sjáum í baksýnisspeglinum, heldur að við þorum að taka þátt í að móta samfélagið til framtíðar.

Því getur kirkjan ekki bara litið á trúnna sem einkamál, heldur þurfum við að halda á lofti hvernig trúin getur verið okkar drifkraftur í því að lifa á vegi þakklætis, friðar og réttlætis, hvernig trúin getur litað hversdaginn okkar, gildin okkar og sýn okkar á samfélagið. Og því eru allar líkur á því að einhverntíman muni fólki finnast ég pólitískur, þegar ég fer að ræða fátækt, málefni hælisleytenda og fólks á flótta, mannréttindabaráttu, stöðu geðheilbrigðismála eða mikilvægi þess að við verndum jörðina – en, Kirkjan má ávarpa allt þetta og meira til – og vonin mín er náttúrulega sú að geta skapað samtal – svo þið skuluð aldrei óttast það að ég taki því illa ef þið viljið ræða eða gagnrýna það sem ég segi, hvort sem það er í prédikunarstólnum, á facebook eða einhverstaðar. Því kirkjan er samfélag – þar sem á að ríkja traust og einlægni.

En hitt held ég að sé verra – ef við sem kirkja lendum í því að hafa ekkert að segja, eða þorum ekkert að segja. Ef við föllum í þá gildru að vera bara til skrauts og missum kjarkinn til að segja það sem okkur liggur á hjarta og trúin knýr okkur til að boða.

Því sú kirkja, sem hefur ekkert erindi, hún hefur engan raunverulegan tilgang og mun deyja.

-

Þegar ég horfi á starfið hér í Glerárkirkju, þá sé ég kirkju með tilgang. Kirkju sem þjónar samfélaginu, býður upp á vandað og gott starf fyrir börnin í hverfinu, kirkju sem veitir andlegan stuðning á erfiðum tímum, kirkju sem vill mæta fólki þar sem það er statt, kirkju sem vill bjóða upp á fjölbreyttar leiðir fyrir fólk til að rækta sitt andlega líf.

Kirkju sem samfélagið hér sýnir traust – og það sjáum við tildæmis af því hve stórt hlutfall krakka á fermingaraldri í hverfinu kýs að fermast í kirkjunni sinni – að foreldramorgnar og barnastarf er vel sótt, að það er mikil eftirspurn eftir sálgæslu og andlegum stuðningi hjá prestum kirkjunnar.

Þetta traust er eitthvað sem við ætlum að hlúa að og standa undir. Á sama tíma og við leyfum okkur að prófa nýja hluti í kirkjustarfinu og gætum þess að vera kirkja sem tekur þátt í samfélaginu og hefur áhrif til góðs.

-

Í guðspjalli dagsins er okkur sagt frá hjálparanum, sannleiksandanum sem vitnar um Guð. Heilögum anda sem umvefur okkur og styður.

Í gegnum þetta Covid ár hef ég þurft að reiða mig á það að andinn leiði mig, hjálpi mér að finna lausnir, hjálpi mér að hvíla í æðruleysinu og þakklætinu.

Andinn talar til okkar allra, á hverjum degi, í innsæinu, í tilfinningum – þegar við kyrrum hugann og leitum í þögnina innra með okkur. Ein stærsta gjöf sem trúin gefur er að kynnast andanum og treysta honum, því það er heilagur andi sem byggir kirkjuna, tengir okkur saman og gefur vöxt í lífið okkar.

Bænin mín fyrir Glerárkirkju og okkur öllum, er að við leyfum andanum að leiða okkur. Að við ræktum andlega lífið okkar, í gegnum íhugun og bæn – og treystum því að við höfum öll hlutverk í því að gera heiminn okkar og samfélag að góðum stað, þar sem réttlæti, kærleikur og friður ríkja.

Megi friður Guðs sem er æðri öllum skilningi varðveita huga okkar og hjarta í Kristi Jesú. Amen