Heimsóknir í Glerárkirkju á aðventu 2010

Á aðventu 2010 stendur hópum frá félagasamtökum, vinnustöðum, úr leikskólum og skólum sem fyrr til boða að taka þátt í skipulagðri dagskrá í Glerárkirkju. Tekið er á móti hópum frá föstudeginum 3. desember og fram til fimmtudagsins 16. desember. Skráning fer fram hjá Sverri í Glerárkirkju (sverrir[hjá]glerarkirkja.is / 464 8800). Hann gefur einnig upplýsingar um nánari tímasetningar en bókað er eftir viðhorfinu ,,fyrstur kemur, fyrstur fær.“

Fjölbreytt dagskrá er í boði og eru kennarar, forsvarsfólk vinnustaðahópa og ábyrgðaraðilar frá félagasamtökum hvattir til að kynna sér hana og taka fram við pöntun á heimsóknartíma hvaða dagskrá er óskað eftir. Gjarnan má pússla saman fleiri en einum dagskrárlið. Að sjálfsögðu er sem fyrr einnig velkomið að biðja um öðru vísi dagskrá en þá sem stungið er upp á hér (til dæmis í tengslum við það þegar íþróttahópar koma og færa gjöf til hjálparstarfsins). Í slíkum tilfellum eru viðkomandi beðnir um að hafa samband beint við þann prest/djákna sem óskað er eftir að taki á móti viðkomandi hópi. - (sr. Gunnlaugur, 864 8455, sr. Arna, 864 8456, Pétur Björgvin djákni, 864 8451).

1. Helgistund á aðventu. 10 – 15 mínútna helgistund þar sem fléttað er saman hversdagsleikanum, væntingum einstaklinganna, tilhlökkun barnsins og boðskapi jólanna, allt eftir aldurshópi. Helgistundir þessar eru ýmist í umsjón prests eða djákna.
2. Staldrað við í kirkjunni. 10 – 15 mínútna gangur um kirkjuna, starfið kynnt og staðnæmst við listaverk Leifs Breiðfjörð sem prýða glugga kirkjunnar. Umsjón: Prestur eða djákni.
3. Jólaguðsspjallið sýnt með biblíubrúðum sem stillt hefur verið upp í kirkjunni. 15 til 25 mínútna dagskrá eftir aldri og óskum viðkomandi. Rætt er við þátttakendur um sýn þeirra á jólaguðsspjallið. Umsjón: Prestur eða djákni.
4. Aðventuljósin. Sögð er saga af tilurð aðventukransins skv. þýskri hefð og rætt um tákn og nöfn á aðventukransi og –kertum. Dagskráin tekur 10 til 20 mínútur eftir aldri og óskum viðkomandi. Umsjón: Prestur eða djákni.
5. Kynning á Hjálparstarfi kirkjunnar. 20 – 25 mínútna löng dagskrá þar sem prestur/djákni segir frá nokkrum þáttum úr starfi Hjálparstarfs kirkjunnar og sýnir myndir.
6. Jólaguðsspjallið og við. Notaleg spjallstund í kapellu um jólaguðsspjallið. ATH: Aðeins fyrir litla hópa. Umsjón: Prestur eða djákni. Dagskráin tekur 10 mínútur. ATH: Hægt er að skipta hópi upp, þannig að hluti hóps sé í þessari dagskrá á meðan hinn hluti hópsins er í nr. 2 – svo er skipt.
7. Piparkökur og mjólkurglas. Þeir hópar sem það kjósa (muna að bóka þennan þátt) eru boðnir í piparkökur og mjólkur- eða vatnsglas í tengslum við kirkjuheimsókn á aðventu. ATH: Ef einhver í hópnum eru með ofnæmi þá vinsamlegast takið með e-ð í staðinn fyrir piparkökurnar.
    Kær kveðja, Pétur Björgvin Þorsteinsson, djákni – petur[hjá]glerarkirkja.is / 864 8451.