Heilög kirkja - Kirkja Krists

Sunnudaginn 9. desember næstkomandi, sem er annar sunnudagur í aðventu, verður 20 ára vígsluafmæli Glerárkirkju fagnað. Kirkjan var vígð á sama degi kirkjurársins á sínum tíma, sem þá bar upp á 6. desember, sem er Nikulásarmessa. Hátíðardagskrá helgarinnar er útlistuð á öðrum stað hér á heimasíðunni og eru allir velunnarar kirkjunnar hvattir til þátttöku.

Á hátíð sem þessari er rétt og skylt að rifja upp tilganginn með kirkjunni, lífi hennar og starfi. Mennirnir stofna með sér félög um hin margvíslegustu málefni, en kirkjan hefur algera sérstöðu hvað þetta varðar því hún rekur upphaf sitt til Guðs. Í fyrsta lagi, þá stofnaði Frelsarinn Jesús Kristur til postulegs þjónustuhlutverks og fól þeim að gera allar þjóðir að lærisveinum, skíra til nafns Föður, Sonar og Heilags Anda og kenna þeim allt það sem hann kenndi þeim um guðsríkið og líf í ljósi Guðs. Í öðru lagi sendi hann postulunum og fylgjendum sínum Heilagan Anda þeim til helgunar, styrks og hjálpar. Þetta tvennt er sá grundvöllur sem Kristur lagði kirkjunni til og jafnframt lofaði hann að vera með okkur og hjá okkur í Heilögum Anda allt til enda veraldar. Annan grundvöll en þennan á kirkjan ekki.

Hin eiginlega kirkja og söfnuður að kristnum skilningi er fólkið sjálft sem gengið hefur Kristi á hönd. Við erum í samfélaginu við hann kölluð til að uppbyggjast og helgast sem lifandi, lýsandi steinar andlegs húss og samfélags - þar sem lindir hjálpræðis Guðs fá að streyma fram - öllum mönnum til blessunar og Guði til dýrðar. Hin lifandi kirkja á að vera vettvangur ljóss og lífs þar sem við saman lærum að elska það sem Guð elskar og vilja það sem Guð vill.

Glerárkirkja, sem við heiðrum nú og fögnum tilurð hennar er og á að vera, ásamt öðrum vígðum og helguðum kirkjuhúsum, táknmynd um þann andlega veruleika sem hér að framan hefur verið lýst. Jafnframt á hún að vera vettvangur og umgjörð utan um það líf, boðskap og starf sem Jesús Kristur hefur kallað til,. Guð gefi að svo muni ætíð vera.

Framundan er aðventan og jólin. Um leið og við biðjum fyrir gleðilegri og blessunarríkri hátíð í faðmi fjölskyldu og ástvina skulum við fela Glerárkirkju góðum Guði og biðja hann að starfið allt megi verða farsælt, Guði til dýrðar og söfnuðinum til blessunar.

Guð gefi þér og fjölskyldu þinni gleðileg jól.

Gunnlaugur Garðarsson, sóknarprestur.