Hátíðarmessa á vígsluafmæli Glerárkirkju

Biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir flytur hátíðarprédikun í messu á vígsluafmæli Glerárkirkju sunnudaginn 9. desember kl. 14:00. Kór Glerárkirkju undir stjórn Valmars Väljaots flytur Krýningarmessu eftir Wolfgang Amadeus Mozart ásamt einsöngvurum. Vígðir þjónar kirkjunnar þau sr. Gunnlaugur Garðarsson, sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir og Pétur Björgvin Þorsteinsson djákni þjóna í messunni. Sóknarnefndarfólk aðstoðar við messuna auk sjálfboðaliða. Að messu lokinni er boðið til vígsluafmæliskaffis.

Krýningarmessan

Verkið sem Kór Glerárkirkju ásamt einsöngvurum flytur í hátíðarmessunni er messa í C-Dúr eftir Wolfgang Amadeus Mozart, verk sem gjarnan er nefnt Krýningarmessan. Fræðimenn telja að þessi messa hafi fyrst verið flutt í páskamessu í dómkirkjunni í Salzburg í Austurríki þann 4. apríl 1779. Mozart sem þá var nýkominn aftur til starfa í Salzburg sem dómorganisti að lokinni 18 mánaða árangurslausri atvinnuleit í París og Mannheim, dagsetti verkið 23. mars það ár.

Þekktari er þó flökkusaga sem rekja má til ársins 1907 en þá hélt Johann Evangelist Engl sem var mikill aðdáandi Mozarts því fram að verkið hefði verið samið til árlegs flutnings í pílagrímshelgidóminum Maria Plain í nágrenni Salzburg allt frá 27. júní 1779. Rökin sem hann færði fyrir þeirri skoðun sinni voru meðal annars þau að Mozart fjölskyldan hafi ætíð haldið mikið upp á þennan helgistað rómversk-kaþólsku kirkjunnar frá barokk tímabilinu sem helguð er Maríu mey.

Engar heimildir eru þó til sem styðja þessa skoðun Engl varðandi verkið og ljóst að nafn verksins getur ekki stutt þessa skoðun því það kemur fyrst fyrir skriflega árið 1873. Það nafn rekur sig til þeirrar staðreyndar að fljótlega eftir fyrsta flutning þess við messu var farið að nota verkið við krýningarathafnir konunga og keisara. Fyrsti slíki flutningurinn var sennilega við krýningu Franz II keisara árið 1792. Því tóku hljómsveitarmeðlimir konunglegu hljómsveitarinnar í Vínarborg sín á milli að tala um þetta tónverk sem krýningarmessu og það nafn hefur haldist á verkinu sem telst eitt af þekktustu verkum Mozarts.

Tónlistarstjóri við flutning verksins í þessari hátíðarmessu er Valmar Väljaots. Undirleik á píanó annast Aladár Rácz. Einsöngvarar eru fjórir, þau Helena G. Bjarnadóttir (sópran), Elvy G. Hreinsdóttir (alt), Hjalti Jónsson (tenór) og Michael J. Clarke (bassi). Þetta er öðru sinni sem Kór Glerárkirkju kemur að flutningi verksins því að kórinn tók þátt í flutningi verksins ásamt öðrum kórum á kóramóti sem kennt er við Franz Schubert og var haldið í Vínarborg í Austurríki. Myndin hér að ofan var tekin við það tilefni.