Hæ Tröllum

Karlakór Akureyrar-Geysir stendur fyrir söngmótinu “Hæ! Tröllum” laugardaginn 24. mars. Nafnið er fengið úr gömlu þekktu sænsku lagi, sem flestir karlakórar hafa sungið. Tónleikarnir verða haldnir í Glerárkirkju og hefjast kl. 16:00. Aðgangseyrir er kr. 2.000,- Að þessu sinni verða þátttakendur mótsins héðan af svæðinu: Karlakór Eyjafjarðar og Karlakór Siglufjarðar auk gestgjafanna sjálfra KAG. Má því segja, að nú heyrum við í Eyfirðingum til sjávar og sveita auk bæjarbúanna.

Karlakór Siglufjarðar kemst nú í fyrsta sinn á malbiki alla leið í bæinn til að vera með okkur á mótinu. Stjórnandi þeirra er Guðrún Ingimundardóttir. Karlakór Eyjafjarðar kemur úr Eyjafjarðarsveit og Pál Barna Szabó er stjórnandi kórsins þetta árið. KAG er heimilisfastur á Akureyri og Valmar Väljaots stjórnar honum eins og undanfarin fimm ár.

Hver kór verður með sitt prógram og verður spennandi að heyra hvað verður í boði. Í lokin syngja allir kórarnir saman nokkur stórvirki úr sönghefð íslenskra karlakóra.

Frekari upplýsingar veitir Snorri Guðvarðsson, formaður Karlakórs Akureyrar-Geysis, sími 863-1419.