Glerárprestakall stofnað

Árið 1981 varð Glerárprestakall til. Þar með hófst nýr kafli í sögu þjónustu kirkjunnar við íbúa norðan Glerár á Akureyri. Það ár fóru fram prestskosningar í byrjun desember og voru 2.392 á kjörskrá, en kosið gátu öll þau sem voru skráð í þjóðkirkjuna og höfðu náð 18 ára aldri. Lausleg talning í íbúaskrá frá því ári gefur til kynna að innan við 50 manns (16 ára og eldri) hafi á þessum tíma tilheyrt öðru trúfélagi en þjóðkirkjunni á því svæði sem nú telst póstnúmer 603. Sr. Pálmi Matthíasson var kjörinn sóknarprestur.

Á komandi aðventu höldum við í Glerárkirkju upp á 20 ára vígsluafmæli Glerárkirkju, en þá verða líka liðið 31 ár frá fyrstu prestskosningu í prestakallinu nýja. Þó nokkuð hefur breyst í gegnum árin. Lítum fyrst á íbúaþróun á Akureyri, en eins og fram hefur komið í fréttum nýverið eru Akureyringar nú orðnir 18.000. Inn í þeirri tölu eru íbúar í Hrísey og Grímsey, en Miðgarðssókn í Grímsey tilheyrði einmitt Glerárprestakalli við stofnun þess. Þann 1. desember 1981 voru íbúar á Akureyri 13.605 talsins. 20 árum seinna hafði þeim aðeins fjölgað um 2.000. Myndin hér fyrir neðan sýnir þróunina ár frá ári:

Íbúaþróun á Akureyri

Fyrstu árin var stór hluti íbúafjölgunar á Akureyri norðan Glerár en síðustu 20 árin hefur hlutfallið haldist nokkuð jafnt, þ.e. rúm 40% íbúa norðan ár og tæp 60% íbúa sunnan ár. Myndin hér að neðan sýnir hlutfall íbúa sunnan ár (blár) og norðan ár (rauður) frá 1993 til dagsins í dag.

Blár er hlutfall íbúa sunnan Glerár

Ef litið er nánar á þróun í Lögmannshlíðarsókn síðustu átta ár sést að milli áranna 2004 og 2006 urðu þó nokkrar sveiflur í íbúatölum norðar Glerár. Þannig fækkaði íbúum norðan Glerár um 5% milli áranna 2004 og 2005 en fjölgaði aftur um 6% frá 2005 til 2006. Önnur fækkun varð svo norðan ár 2009 þegar íbúum þar fækkaði um 3%. Myndin hér að neðan sýnir þessa þróun, en þar er rauða línan breyting í fjölda íbúa milli ára, bláa línan breyting í fjölda þjóðkirkjumeðlima og græna línan breyting á fjölda greiðenda sóknargjalda.

Þróun í Lögmannshlíðarsókn

Mörgum kann hins vegar að þykja áhugaverðara að skoða aldurs- og kynjasamsetningu íbúa í 603 Akureyri. Þegar árin 2003, 2006, 2009 og 2012 eru borin saman (1. janúar hvert ár) þá kemur í ljós að hverfið eldist mjög hægt.

  • Þann 1. janúar síðastliðinn voru 1200 börn á aldrinum 0 til 9 ára en tæplega 1300 börn árið 2003 í hverfinu. Hér er því örlítil fækkun. (~-100)
  • Aldurshópurinn 10 til 19 ára er í dag (1.jan 2012) eiginlega jafn stór og 2003 eða um 1150 börn. (~+/-0)
  • Ef horft er á aldurshópinn 20 til 29 ára er það sama upp á tengingnum, tæplega 1100 tilheyra honum bæði nú sem og árið 2003. (~+/-0)
  • Í hópnum frá 30 til 39 ára má greina um 10% fækkun. Árið 2003 tilheyrðu 1100 manns hópnum en nú tæplega 1.000 manns. (~-100)
  • Þegar aldurshópurinn 40 til 49 ára er greindur sést að árið 2003 tilheyrðu 1030 manns honum, en nú tæplega 980 manns. (~-50)
  • Í aldurshópnum 50 til 59 ára er nokkur fjölgun. Árið 2003 tilheyrðu 680 þeim aldurshópi, en nú 930 manns. (~+250)
  • Aldurshópurinn 60 til 69 ára hefur breyst aðeins. Árið 2003 tilheyrðu 360 manns þeim aldurshópi, en í dag eru það um 530 manns. (~+170)
  • Aldurshópurinn 70 til 79 ára hefur hins vegar staðið í stað, 300 manns tilheyra hópnum. (~+/-0)
  • Hins vegar er þó nokkur fjölgun í hópi 80 til 89 ára, sem eru nú 150 manns, en voru tæplega 90 talsins árið 2003. (~+60)

Hér fyrir neðan má skoða aldurstré sem sýna þetta betur:

Þróun eftir aldri og kyni