Gleði og upplifun

Kór Glerárkirkju er væntanlegur til landsins á morgun, þriðjudag, eftir að hafa tekið þátt í Sing'n Joy 2012 í Vínarborg þar sem fjöldi kóra frá öllum heimshornum kom saman, annars vegar til þess að standa fyrir margskonar sameiginlegum tónleikum og hins vegar til að taka þátt í kórakeppni. Kór Glerárkirkju kemur heim með bronsverðlaun í farteskinu.

Að sögn Péturs Guðjónssonar sem er með í för ríkir mikil gleði í búðum kórsins en þau eru nú stödd í München á heimleið. Sigurvegar í flokknum sem Kór Glerárkirkju keppti í var blandaður kór frá Kazakstan og vann sá kór einnig keppnina í heild sinni. Af kórfólki má heyra að það hafi verið mikil upplifun að taka þátt í verðlaunahátíðinni og talaði Pétur um að stemmningin hafi verið svipuð og við verðlaunaafhendingu á íslensku fótboltamóti.