Gagnrýni þökkuð

Það er til marks um að fólki þyki vænt um kirkjuna sína og starfið sem þar fer fram þegar gagnrýni er komið á framfæri um það sem betur má fara í kirkjustarfinu. Valgarður Stefánsson skrifaði í Velvakanda á dögunum og benti réttilega á að þó að upptaka af fræðslukvöldi fari fram, megi ræðumaður ekki bara horfa í myndavélina. Bréf hans til Velvakanda má lesa hér fyrir neðan í heild sinni. Netið og kirkjan

Fyrir skömmu fór undirritaður á fyrirlestur í Glerárkirkju á Akureyri. Nú hefur verið tekin upp sú nýbreytni að setja slíkt efni á heimasíðu kirkjunnar. Ræðumaðurinn talaði því fyrir framan upptökuvél og beindi orðum sínum allan tímann að henni. Þegar kirkjan hefur tekið upp á því að hafa netið í öndvegi verður hún sjálf vitanlega óþörf. Slíka viðburði má taka upp hvar sem er. Upptakan sjálf þarfnast ekki áheyrenda enda er hún ekki gerð fyrir þá, heldur hina týndu sauði sem eru hættir að mæta í kirkju. Auðvitað eiga slíkar upptökur eingöngu að vera staðfesting á því að viðburðurinn hafi farið fram. Upptakan á aldrei að vera aðalaltriðið. Þeir sem koma í kirkju vilja heyra hið lifandi orð en ekki það stafræna. Ræðumenn eiga að beina orðum sínum til tilheyranda en ekki inn í upptökuvélar.

Undir bréfið ritar Valgarður Stefánsson (Birtist í Morgunblaðinu, 5. október 2011)

Við í Glerárkirkju þökkum þessa mikilvægu ábendingu. Þeim sem vilja koma ábendingum um starfið á framfæri er bent á að senda þær á glerarkirkja@glerarkirkja.is - nú eða velja þá leið sem Valgarður valdi og skrifa í blöðin, það tryggir að fleiri sjá viðkomandi ábendingu sem getur jafnvel nýst öðrum kirkjum!