Friðarloginn

Þessi saga hefst í byrjun desembermánaðar 1986. Nokkrir skátar leggja leið sína frá Austurríki til Betlehem. Á bak við ferðina standa austurríska útvarpið og skátahreyfingin þar í landi. Þetta er friðarför.

Friðarljósið kom í fyrsta skipti til Íslands 19. des. 2001 með Dettifossi frá Árósum. Landsgildið, samband St. Georgsgildanna á Íslandi, Bandalag íslenskra skáta og Landsbjörg, samtök björgunarsveita á Íslandi, tóku höndum saman um móttöku og útbreiðslu Friðarljóssins frá Betlehem hér á Íslandi.

Landsgildismeistari tók á móti Friðarloganum úr hendi forstjóra Eimskipafélagsins. Þar var síðan kveikt á kyndlum með Friðarloganum og gengið til Dómkirkjunnar í Reykjavík, Fyrir göngunni gekk landsgildismeistari með lugtina sem kom frá Danmörku, blysberar og fánaberar forseti Íslands, biskup Íslands, skátahöfðinginn á Íslandi og formaður Landsbjargar, landssambands hinna íslensku björgunarsveita. Gildisskátar, skátar og annað áhugafólk um Friðarlogann tóku þátt í göngunni.

Friðarljósið logar í Jósefskirkjunni í Hafnarfirði allt árið og hefur gert frá því að það kom til landsins. Það logar þar á luktinni sem kom með logann Jósef. Og inni í kór kirkjunnar logar kerti með Friðarljósinu og skipt er um kerti eftir þörfum til þess að ljósið lifi óslitið. Þannig verður tvöfalt öryggi á varðveislu Friðarlogans í Jósefskirkjunni í Hafnarfirði.

Misvel hefur gengið að halda starfinu í kringum Friðarlogann gangandi en Glerárkirkja hefur tekið að sér síðustu ár að taka við loganum þegar skátarnir fara hringinn í kringum landið rétt fyrir aðventu með logann. Öllum er velkomið að koma við í Glerárkirkju og taka við loganum sem gjöf.

Glerárkirkja er ein kirkja af mörgum í heiminum sem taka þátt í þessu verkefni. Þessi saga hefst í byrjun desembermánaðar 1986. Nokkrir skátar leggja leið sína frá Austurríki til Betlehem. Á bak við ferðina standa austurríska útvarpið og skátahreyfingin þar í landi. Þetta er friðarför.

Erindi þeirra var að heimsækja Fæðingarhellinn í Betlehem og sækja þangað ljós af loga, sem hefur óslitið lifað þar allt upphafsárum kristninnar og kallaður hefur verið Friðarloginn. Hann hefur verið ímynd þess boðskapar sem ómaði hina fyrstu jólanótt um frið á jörðu. Skátarnir höfðu með sér lugtir og kveiktu á þeim með ljósi frá loganum í Fæðingarhellinum. Síðan héldu þeir heimleiðis með lugtirnar sínar með lifandi Friðarljósinu, - Friðarljósinu frá Betlehem.

Þegar heim kom útdeildu þeir Friðarljósinu til St. Georgsgilda og skátafélaga í Austurríki, en síðan sáu gildisfélagar og skátar um útbreiðslu Friðarljóssins hver í sinni heimabyggð, og með þeim hætti sem hvert og eitt félag ákvað. Alls staðar var Friðarljósið gjöf - og hverju nýju ljósi sem tendrað var fylgdi óskin og bænin um Frið á jörðu. Austurríska útvarpið annaðist kynningu á Friðarljósinu, tilveru þess og tilgangi og flutti fréttir af móttöku Friðarljóssins á hinum ýmsu stöðum. Þannig byrjaði þetta.

Friðarljósið frá Betlehem er ávallt afhent sem gjöf. Sérhvert nýtt ljós sem tendrað er með Friðarloganum er kveikt með ósk um frið á jörðu. Friðarljósið frá Betlehem er:

  • ljós samkenndar og samábyrgðar,
  • ljós skilnings milli manna og þjóða,
  • ljós friðar og vináttu,
  • ljós frelsis og sjálfstæðis,
  • ljós fyrir þá sem þjást eða eru einmana,
  • ljós fyrir hjálpsemi í verki.