Fjölmenni á fyrirlestri Péturs Péturssonar

Rúmlega 50 manns sóttu fyrirlestur dr. Péturs Péturssonar sem haldinn var í safnaðarsal Glerárkirkju í gærkvöldi. Yfirskrift fyrirlestursins var ,,Akureyri: Sigurhæðir í kristnisögu Íslands" en þar fjallaði Pétur um sigurhæðir kristni á Akureyri í víðum skilningi þess orðs og minnti á að rætur kristni í Eyjafirði liggja allt aftur til landsnáms. Þá hvatti hann yfirvöld og aðra áhugasama á Akureyri til þess að skoða betur rætur kristni í Eyjafirði, meðal annars með því að leggja vinnu og fjármagn í leit að grafreit þar sem Þórunn Hyrna liggur grafin. Að mati Péturs er næsta víst að Þórunn hafi líkt og systir hennar Auður djúpuðga ekki viljað hvíla í óvígðri mold.

Í upphafi máls síns minnti Pétur áheyrendur á að þegar Akureyri fékk kaupstaðaréttindi fyrir 150 árum var engin kirkja á Akureyri. Hún reis ári síðar og í kjölfarið tók kristni að blómstra á Akureyri í ýmsum myndum. Það sem gerði þó útslagið að mati Péturs var það frjálslyndi sem prestar sem völdust til starfa á Akureyri sýndu í garð ýmissra hreyfinga sem störfuðu á Akureyri.

Skoða myndir.