Erindi sr. Vigfús Ingvarssonar um íhugun og andlega fylgd

Sr. Vigfús Ingvar Ingvarsson, fyrrum sóknarprestur á Egilstöðum, var með athyglisverðan fyrirlestur í Glerárkirkju 12. febrúar síðast liðinn. Erindið nefndi hann Íhugun og andleg fylgd samkvæmt hefð Ignatiusar Loyola en Nonni (Jón Sveinsson) var af reglu hans. Þetta var annar fyrirlesturinn um Kristna íhugun og bæn í  Glerárkirkju nú í febrúar.

Sr. Vigfús Ingvar sagði frá þessari hefð sem á rætur að rekja til Loyola stofnanda jesúítareglunnar og bókar hans Andlegar æfingar. Eitt af einkennum hennar er að hlusta, hlusta á sjálfan sig og dýpstu þrár sínar, á aðra menn og þannig hlustar maður eftir Guði í lífi sínu. Hann nefndi að hann hefði verið á viku námskeiði þar sem þetta hefði verið aðal viðfangsefnið - að hlusta. Hann benti á að þau sem njóta andlegrar leiðsagnar eru algjörlega á sínum forsendum og leiðbeinandinn bregst við til þess að leiða þau áfram á sinni andlegu vegferð. Innlifun í frásagnir Biblíunnar er ríkur þáttur í þessari hefð. Taldi hann að Gunnar F. Guðmundsson í ævisögu sinni um Jón Sveinsson, mjög svo góðri, hafi yfirsést þetta atriði, þar sem Nonni var andlegur leiðbeinandi í reglu sinni. Það ásamt lifandi frásagnahefði í heimalandinu hefði verið stór þáttur í ritstörfum hans. Fannst mér það jafnframt skýra þá barnslegu heiðríkju sem er í ritstörfum hans. Andlegt ferðalag sem þetta er alfarið undir merki frelsisins og lífsins eins og það er í raun.

Þessi tvö erindi eru nú aðgengileg á YouTube (1) Um íhugun og andlega fylgd og (2) Bæn hjartans - Jesúbænin. Næsta miðvikudag 19. febrúar mun sr. Hjati Þorkelsson, prestur í Kaþólsku kirkjunni á Akureyri flytja erindi um Tíðarbænir, daglegar bænir kirkjunnar. Það er að vanda í Glerárkirkju kl. 20.