Diskó eða dýrðarsöngur á fræðslukvöldi 30. okt.

Síðasta kvöldið í dagskránni Syngjandi kirkja verður á miðvikudaginn 30. október kl. 20-22. Yfirskrift kvöldsins er Diskó eða dýrðasöngur. Áherslan verður á nýjum sálmasöng sem litið hefur dagsins ljós hin síðari ár. Kór Glerárkirkju flytur nokkur dæmi og Valmar Väljaots, organisti, kynnir nokkrar nýjar stefnur í tónlistinni sem notuð er. Hildur Eir Bolladóttir og Sunna Dóra Möller, prestar í Akureyrarkirkju, ræða um nýrri sálmakveðskap.

Þær koma inn á notkun dægurtónlistar í guðsþjónustum og segja frá ferð til Taizé í Frakklandi í sumar með ungleiðtogum úr æskulýðsstarfi Akureyrarkirkju. Frá Taizé koma sérstakir sálmar sem eru meðal annars í íslensku sálmabókinni. Að vanda verður boðið upp á kaffiveitingar.

Að lokum þessara fjögurra kvölda er viðeigandi að bjóða upp á pallborðsumræður og samtal um sálmasöng og kirkjutónlist með þeim sem lagt hafa til þessarar dagskrár. Allir hjartanlega velkomnir.