Daginn í dag gerði Drottinn Guð

Hversdagurinn getur verið grár. Áskoranirnar eru margvíslegar á virkum dögum og helgar geta verið misskemmtilegar. Okkur gengur misvel að sjá gleðigjafana í kringum okkur. Sum okkar eiga auðveldar með að geisla af gleði, önnur eru lengur að hrissta af sér slenið. Hvað er því betra en að setjast upp í rútu og skella sér í skemmtiferð með rúmlega 100 jafnöldrum þar sem gleðin er í fyrirrúmi í leik og starfi. Krakkar frá Húsavík, af Svalbarðsströnd, frá Akureyri, Dalvík og Ólafsfirði ætla að eiga saman góðar stundir á Hrafnagili í Eyjafirði ásamt fullorðnu fylgdarfólki sínu í dag og á morgun. Þau eiga það sameiginlegt að taka virkan þátt í tómstundastarfi kirkjunnar og KFUM og KFUK í hverri viku. Með samverunni vilja aðstandendur starfsins gefa börnunum tækifæri til að gera sér glaðan dag. Dagskráin er heppileg blanda af leik og fræðslu undir yfirskriftinni ,,Daginn í dag gerði Drottinn Guð”.

Dagskránni lýkur með helgistund í Kaupangskirkju í Eyjafjarðarsveit á laugardeginum þar sem þátttakendurnir sem eru á aldrinum 9 til 12 ára eru í aðalhlutverki. Þau mynda kirkjukórinn, sjá um að lesa bænir sem þau hafa sjálf samið og predikun dagsins samanstendur af leikþáttum sem þau hafa lagt vinnu og hæfileika sína í.

Þegar heim er komið minnir vinabandið sem þau bera á handleggnum þau á samvistirnar á Hrafnagili, en einnig á það hvernig við getum eflt gleði hversdagsins því að á vinabandinu eru sjö mismunandi perlur, hver til minnis um að allir dagar bera eitthvað sérstakt í skauti sér. Þannig eru krakkarnir hvattir til þess að uppgötva gleðina í því smáa mitt í hversdeginum.  Og minningin um góðar stundir við leik og störf í sundlaug, íþróttahúsi, úti og inni, með hressum krökkum, lifir og veitir gleði.

Brottför fyrir krakka úr TTT starfi Glerárkirkju er frá félagsheimili KFUM og KFUK við Sunnuhlíð kl. 17:30. Mæting 17:15.