Bolli Pétur, Sunna Dóra, núið og framtíðin

Hjónin í Laufási, sr. Bolli Pétur Bollason og Sunna Dóra Möller, guðfræðingur, halda erindi í safnaðarsal Glerárkirkju miðvikudagskvöldið 28. mars kl. 20:00 sem nefnist: ,,Vegurinn framundan, nútíminn og framtíðin.” Fyrirlesturinn er hluti af umræðukvöldum prófastsdæmisins sem haldin hafa verið í vetur í samstarfi við Glerárkirkju og hefst dagskráin kl. 20:00. Umræðukvöldin á vorönn 2012 hafa tengst sæluboðum Jesú í Fjallræðunni. Á því er engin undantekning á þessu áttunda og jafnframt síðasta umræðukvöldi vorsins er niðurlag sæluboðanna úr 5. kafla og 12. versi a Matteusarguðspjalls til umfjöllunar:

Gleðjist og fagnið því að laun yðar eru mikil á himnum.

Á þessu umræðukvöldi munu hjónin m.a. fjalla um eftirfarandi spurningar:

  • Hvernig á sæluboðunin og Fjallaræðan við í dag?
  • Hvernig göngum við á veginum í nútímasamfélagi og höfum áhrif til góðs?
  • Hvernig lítur framtíðin út fyrir kristni og kirkju?

Til grundvallar erindi þeirra liggur meðal annars eftirfarandi biblíutexti:

Á bjargi

21Ekki mun hver sá sem segir við mig: Drottinn, Drottinn, ganga inn í himnaríki heldur sá einn er gerir vilja föður míns sem er á himnum. 22Margir munu segja við mig á þeim degi: Drottinn, Drottinn, höfum vér ekki í þínu nafni flutt orð Guðs, rekið út illa anda og gert mörg kraftaverk? 23Þá mun ég votta þetta: Aldrei þekkti ég yður. Farið frá mér, illgjörðamenn. 24Hver sem heyrir þessi orð mín og breytir eftir þeim, sá er líkur hyggnum manni er byggði hús sitt á bjargi. 25Nú skall á steypiregn, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi en það féll eigi því það var grundvallað á bjargi. 26En hver sem heyrir þessi orð mín og breytir ekki eftir þeim, sá er líkur heimskum manni er byggði hús sitt á sandi. 27Steypiregn skall á, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi. Það féll og fall þess var mikið.“ 28Þegar Jesús hafði lokið þessari ræðu varð mannfjöldinn djúpt snortinn af orðum hans 29því að hann kenndi eins og sá er vald hefur og ekki eins og fræðimenn þeirra.

Nálgast má yfirlit yfir fræðslukvöldin á vorönn 2012 á vef prófastsdæmisins.

Upptökur frá kvöldunum verða birtar á vef Glerárkirkju.