Af hverju jáyrði við þjóðkirkju?

Sr. Þorbjörn Hlynur Árnason ritar grein í Morgunblaðið í dag sem nefnist ,,Af hverju jáyrði við þjóðkirkju?" þar sem hann bendir á að ekki er verið að kjósa um samband ríkis og kirkju, heldur miklu fremur um samband kristni og þjóðar, þ.e. hvaða umgjörð við viljum hafa um hið trúarlega svið samfélagsins. Þá áréttar hann í greininni að þjóðkirkjan er sjálfstætt trúfélag en hvorki ríkiskirkja né stofnun. Grein hans er birt í heild sinni hér fyrir neðan:

Næstkomandi laugardag verður þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs. Ein spurninganna varðar samband kristni og þjóðar.

Rétt er að benda á að ekki er verið að kjósa um samband ríkis og kirkju, heldur miklu fremur um samband kristni og þjóðar og hvaða umgjörð við viljum hafa um hið trúarlega svið samfélagsins.

Nauðsynlegt er að árétta, að þjóðkirkjan er sjálfstætt trúfélag og ekki ríkiskirkja eða stofnun. Um hana gildir rammalöggjöf, en lýðræðislega kjörið kirkjuþing, sem er að meirihluta skipað leikmönnum, fer með æðsta vald.

Ekki er það svo að kirkjan sé beiningamaður sem þiggur ölmusu úr ríkissjóði, líkt og sumir halda fram. Laun presta koma úr ríkissjóði, enda fékk ríkið í sinn hlut fleiri hundruð kirkjujarðir, með sérstökum samningi árið 1997. Arður af þessum jörðum stóð um aldir undir prestsþjónustu í landinu. Prestlaun eru því eins og endurgjald fyrir þau verðmæti er ríkissjóður hefur tekið yfir. Rekstur sókna er fjármagnaður með sóknargjöldum sem innheimt eru með tekjuskatti - þau eru félagsgjöld en ekki ríkisframlag. Öll skráð trúfélög fá sín félagsgjöld með þessum hætti.

Þjóð og kirkja og kristni hafa átt farsæla samleið um aldir. Kristindómurinn er einn af hornsteinum íslenskrar menningar. Kirkjan hefur því gegnt ríku menningarlegu og sögulegu hlutverki. Með boðun sinni hefur hún mótað siðvitund okkar, vitund okkar um rétt og rangt, og sjást ávextir þess víða.

Ef þjóðkirkjuákvæði verður samþykkt er ekki ljóst í hvaða mynd það yrði. Hægt væri að halda óbreyttu ákvæði núgildandi stjórnarskrár, eða, líkt og margir telja hagfellt, að geta auk þjóðkirkju um stuðning ríkisvaldsins við önnur trúfélög og lífsskoðunarhópa. Norðmenn fara þessa leið í nýrri stjórnarskrá.

Íslenska þjóðkirkjan er bundin af venju og lagahefð að þjóna á landsvísu. Þannig hefur það verið og verður. Margvísleg þjónusta kirkjunnar stendur öllum almenningi til boða, burtséð frá trúarafstöðu eða lífsskoðunum. Hjálparstarf kirkjunnar hefur aldrei skoðun á því hvað þeir sem þangað leita hugsa um trúarleg efni. Líklega hefur engin örsaga haft viðlíka áhrif í samfélagsmótun og sagan af miskunnsama Samverjanum.

Það er ekki svo að einhver ein trúarbrögð eða lífsskoðun lagi þau mein sem hrjá heiminn. Þar þurfa allir sem vilja vel að taka höndum saman og ganga til góðra verka.

Íslenska þjóðkirkjan hefur um langa hríð verið leiðandi í samstarfi með öðrum trúfélögum. Hún vill starfa í sátt, leitast við að vera umburðarlynd og víðsýn og taka höndum saman með öllum sem hafa góðan vilja til að efla gott mannlíf og tryggja réttlátt samfélag.