Æskulýðsstarf Glerárkirkju fær styrk frá Evrópu Unga Fólksins

Þann 18. febrúar næstkomandi er von á flestum fyrrverandi EVS sjálfboðaliðum Glerárkirkju ásamt fulltrúum sendisamtaka þeirra til fundar í Glerárkirkju. Allt frá árinu 2006 hefur æskulýðsstarf Glerárkirkju verið virkt sem svonefnd móttökusamtök fyrir sjálfboðaliða. Og nú er komið að því að meta verkefnið og spyrja hvernig hafi tekist til og hvað megi gera betur. Þær rúmu tvær milljónir sem kirkjan fær til verkefnisins munu koma þar að góðum notum. Um EVS af vef Evrópu Unga Fólksins:

Hvað er Evrópska sjálfboðaliðaþjónustan (EVS)?


Evrópska sjálfboðaliðaþjónustan, European Voluntary Service, er hluti af ungmennaáætlun ESB, Youth in Action. Þar býðst ungu fólki, 18-30 ára, að vinna sjálfboðaliðastörf erlendis í allt að 12 mánuði. Íslensk samtök / stofnanir / sveitarfélög geta einnig fengið til sín erlendan sjálfboðaliða í ákveðin verkefni. Hægt er að sækja um styrk til Evrópu unga fólksins til að fara sem sjálfboðaliði og að taka á móti sjálfboðaliða.

Athugið að sjálfboðaliðinn sækir ekki um styrk til Evrópu unga fólksins heldur viðurkennd sendi-, móttöku- eða skipulagssamtök. Þess vegna þarf sjálfboðaliðinn að velja sér sendisamtök til að byrja með.

Hvað getur EVS gert fyrir þig?
Það að vera sjálfboðaliði í Evrópu getur verið góð leið til að kynnast öðru landi og annarri menningu. Þú færð mikla reynslu af því að búa í öðru landi, að vinna í nýju umhverfi, að læra nýtt tungumál, svo ekki sé minnst á alla þá vini sem þú átt eftir að eignast.   

Hverskonar sjálfboðaliðastörf eru í boði?
Hægt að fara inn í gagnagrunn þar sem öll sjálfboðaliðastörfin eru skráð. Hægt er að velja sér starf eftir landi, borg eða einhverjum öðrum þætti t.d þema. Sjálfboðaliðastörfin eru byggð á 29 þemum m.a.:

  • listir og menning
  • umhverfið
  • vinna með fötluðum
  • fjölmiðlun og samskipti
  • mismunun

Smelltu hér til að finna þér sjálfboðaliðastarf.

Hver gerir hvað í umsóknarferlinu?
Það eru alltaf þrír aðilar sem koma að hverri umsókn: sjálfboðaliði, sendisamtök og móttökusamtök.

Sjálfboðaliðinn:
Sjálfboðaliðinn sækir ekki um styrkinn til Evrópu unga fólksins. Hann byrjar á því að velja sér sjálfboðaliðastarf í gagnagrunninum. Sjálfboðaliðinn getur líka byrjað á því að velja sér sendisamtök sem aðstoða hann við að leita sér að sjálfboðaliðastarfi og að sækja um starfið.

Styrkurinn til sjálfboðaliðans hljóðar upp á 90-100% af ferðakostnaði, fæði og uppihald, vasapeninga og þau námskeið sem ætlast er til að sjálfboðaliðinn taki þátt í. Athugið að upphæð vasapeninga er misjöfn eftir löndum og er upphæðin miðuð við mánaðarlegar greiðslur - sjá Handbók EUF.

Þegar sjálfboðastarfinu lýkur fær sjálfboðaliðinn viðurkenningarskjal fyrir starfið. Þetta viðurkenningarskjal heitir Ungmennapassi (Youthpass). Í Ungmennapassanum er metin sú framför og þroski sem sjálfboðaliðinn hefur hlotið með því að starfa sem sjálfboðaliði.

Móttökusamtök:
Móttökusamtök sækja um styrkinn fyrir sjálfboðaliðann, sendisamtökin og móttökusamtökin hjá Evrópu unga fólksins. Móttökusamtökin eru þ.a.l. nefnd styrkþegar.   Móttökusamtökin sjá um kaup á farmiðum fyrir sjálfboðaliðann fram og til baka, sjá sjálfboðaliðanum fyrir fæði og húsnæði, tryggja öryggi sjálfboðaliðans og styðja sjálfboðaliðann í gegnum allt sjálfboðaliðaferlið.

Sendisamtök:
Sendisamtök eru íslensk samtök sem aðstoða sjálfboðaliðann við að finna sér sjálfboðaliðastarf og hjálpa honum að sækja um starfið. Sendisamtökin eru tengiliður sjálfboðaliðans við móttökusamtökin. Sendisamtökin sjá um allan undirbúning áður en sjálfboðaliðinn fer af stað og eru í góðu sambandi við sjálfboðaliðann meðan á dvöl hans stendur.

Sjá nánar um styrkt verkefni æskulýðsstarfs Glerárkirkju hér á vefnum: www.glerarkirkja.is/euf