Aðventuheimsóknir og helgisöngleikur

Núna á aðventunni þá hafa yfir 500 leik- og grunnskólabörn úr Þorpinu komið í aðventuheimsóknir.

Í heimsóknunum segjum við jólasöguna með aðstoð aðventukransins, kirkjan er grandskoðuð og við syngjum mikið af jólalögum. Þetta hafa verið skemmtilegar stundir með börnunum og hafa þau verið dugleg að spyrja og mörg hver komið með ýmsar pælingar t.d. í hvað stjörnumerki Jesús sé, hvort að krossinn upp við altarið sé krossinn sem hann var krossfestur á, hvort það sé búið að finna Jesú og svo mætti áfram telja.

Hjá okkur í Glerárkirkju þá hafa þessar stundir verið ómissandi þáttur í aðventunni og erum við afar ánægð og þakklát með þetta góða samstarf sem við eigum við leik- og grunnskólana hér í Þorpinu.

 

Barna - og Æskulýðskórinn okkar átti stórleik síðastliðinn sunnudag þar sem þau stigu á stokk og sýndu söngleikinn Gott ráð, Engilráð sem Elín Elísabet Jóhannsdóttir skrifaði og Guðmundur Karl Brynjarsson gerði söngleik eftir. Sýndu kórarnir frammi fyrir þéttsetinni kirkju og uppskáru mikil fagnaðarklöpp eftir sýninguna.

Umsögn um bókina: Hvað er sterkara en vöðvar og ofurkraftar allra ofurhetjanna í heiminum samanlagt? Hvernig í veröldinni er hægt að virkja slíkan kraft? Og geta venjuleg börn fengið hann? Dag nokkurn fengu nokkur börn óvenjulegar gjafir í skóinn. Gjafirnar áttu eftir að breyta lífi þeirra. Hér er á ferðinni falleg jólasaga um vináttu og kærleika. (fengið af vef Forlagsins 20.12.2023)