Aðalsafnaðarfundur Lögmannshlíðarsóknar verður haldinn sunnudaginn 22. maí næstkomandi að lokinni messu. Messan hefst kl. 11:00. Á
aðalsafnaðarfundi er gerð grein fyrir starfsemi og rekstri sóknarinnar á liðnu starfsári, reikningar afgreiddir og kosið í sóknarnefnd til 4ra
ára. Allir eru velkomnir á aðalsafnaðarfund.
Í 52. grein laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar
nr. 78 frá 1997 kemur
meðal annars fram að aðalsafnaðarfund skal að jafnaði halda fyrir maílok ár hvert og að:
- Aðalsafnaðarfundur fer með ákvörðunarvald innan sóknarinnar í málum þeim sem undir fundinn heyra samkvæmt lögum eða
lögmæltum ákvörðunum.
- Sóknarmenn njóta kosningarréttar og kjörgengis á safnaðarfundum þegar þeir eru fullra sextán ára.
Kirkjuþing hefur sett sóknarnefndum sérstakar starfsreglur (
nr. 732/1998) og má þar lesa m.a. að það er
sóknarnefnd sem boðar til aðalsafnaðarfundar með að minnsta kosti viku fyrirvara. Á aðalsafnaðarfundi er kosið í sóknarnefnd, en hún
fer með stjórn á rekstri safnaðarins á milli safnaðarfunda.
Eðli málsins samkvæmt horfir aðalsafnaðarfundur eftir því sem við á hverju sinni til starfa
Kirkjuþings, sem samkvæmt ofangreindum lögum nr. 78 frá 1997 fer með æðsta vald í málefnum
þjóðkirkjunnar innan lögmæltra marka.
Lögmannshlíðarsókn dregur nafn sitt af því að í Lögmannshlíð (áður Hlíð) hefur staðið kirkja frá
fornu fari og var Lögmannshlíðarsókn hluti af Lögmannshlíðarprestakalli. Í kjölfar breytinga var Lögmannshlíðarsókn
færð undir Akureyrarprestakall árið 1884 og þjónuðu prestar Akureyrarkirkju Lögmannshlíðarsókn fram til ársins 1981 þegar
nýtt prestakall, Glerárprestakall var stofnað.
Íbúar á Akureyri, norðan Glerár tilheyra Lögmannshlíðarsókn. Samkvæmt upplýsingum á vef Hagstofu Íslands voru
íbúar í Lögmannshlíðarsókn 16 ára og eldri þann 1. desember síðastliðinn 5.390 talsins (hafa öll kosningarétt
á aðalsafnaðarfundi og geta boðið sig fram til setu í sóknarnefnd), og yngri en 16 ára 1.875 talsins. Hlutfall þeirra sem eru skráðir
í þjóðkirkjuna í sókninni er nokkuð hátt miðað við landsmeðaltal (sem er tæp 78%), eða nákvæmlega 90% (539 16
ára og eldri ekki í þjóðkirkjunni).
(Myndin sem fylgir fréttinni er af ljósmyndavef þjóðkirkjunnar og er tekin á Kirkjuþingi 2010).
Frekari upplýsingar: