,,Það er mikið mál að þrífa þessa kirkju

Það var um miðjan júlí í sumar. Þau komu göngumóð í Glerárkirkju, herra og frú Edge. Höfðu gengið alla leið frá Oddeyratanga. Þau voru farþegar á skemmtiferðaskipinu Aurora sem lá við bryggju. Það fyrsta sem hann sagði eftir að hafa heilsað mér var: ,,Það er mikið mál að þrífa þessa kirkju." Við áttum ágætt spjall saman. Ég sýndi þeim kirkjuna, sagði þeim frá listaverkunum eftir Leif Breiðfjörð sem prýða glugga kirkjunnar og greindi lauslega frá safnaðarstarfinu. Þau voru stórhrifin en nefndu aftur að það hlyti að vera mikið mál að þrífa þessa stóru kirkju. Það varð til þess að ég fór að forvitnast um þetta atriði. Þau sögðu mér frá því að þau væru sjálfboðaliðar í kirkjunni sinni - St Peter's Church Stonnall / Staffs - í Bretlandi. Sjöundu hverja viku væri röðin komin að þeim að þrífa kirkjuna. Hún væri miklu minni en Glerárkirkja en samt væru þau góðan dagpart að þrífa kirkjuna. Sjö hjón, öll komin yfir sjötugt, skiptast á að þrífa kirkjuna. Við ræddum um sjálfboðið starf og þeim þótti það undarlegt að við værum ekki með fleiri sjálfboðaliða. En svo hrissti hann hausinn og sagði við konuna sína: Þau þyrftu sjö sinnum sjö hjón til þess að þrífa þessa kirkju vikulega.

Þegar hér var komið við sögu vorum við stödd inn í kirkjunni sjálfri og ég búinn að greina þeim frá öllu markverðu að mér þótti. Þá spurði hún: ,,En hvar eru gluggarnir frá Coventry?" Nú kom í ljós að þau höfðu gengið alla þessa leið til þess að skoða gluggana frá Coventry. Þar sem að í ferðahandbókinni þeirra var aðeins greint frá "the church of Akureyri" voru þau sannfærð um að hér væri bara ein kirkja - enda höfðu þau bara séð Glerárkirkju þegar þau horfðu yfir bæinn er skipið sigldi inn fjörðinn. Reyndar hafði bókin orðið eftir um borð í skipinu.

Þau spurðu til vegar á bryggjunni, þau spurðu til vegar á gatnamótunum við BSO, þau spurðu til vegar á Glerártorgi. Í öll þrjú skiptin var þeim beint áfram í átt að Glerárkirkju. Ég var hissa og spurði nánar. Fékk að vita að þau höfðu beðið fólk að segja sér hvar stóra kirkjan með stóru fallegu Coventry gluggunum væri. Kannski að þau hafi líka sagt frá því að þau hafi séð kirkjuna þegar þau sigldu inn fjörðinn?

Í vikunni barst Glerárkirkju bréf frá þeim hjónum þar sem þau þökkuðu fyrir sig. Í bréfinu stendur meðal annars:

We did enjoy our visit. Very impressed with your church. In fact we were delighted with our visit to Iceland. It is a country we would like to visit again. ... Once again thank you for your help - in returning us to the town. We managed to get a photograph of the Coventry Windows - thanks to you.

Þrátt fyrir að hafa verið sagt vitlaust til vegar ætla þau að heimsækja Ísland aftur. Það er gaman að heyra. Sjálfum þykir mér heppilegt að ég skuli hafa verið á bíl í vinnunni þennan dag og getað ekið þeim að Akureyrarkirkju - því það hefði getað verið erfitt fyrir þau að taka leigubíl - peningaveskið varð nefnilega líka eftir um borð í skipinu.

Þetta var ánægjuleg heimsókn, elskulegra hjóna. Í lokin uppástóð hann að fá að taka mynd af mér og konunni hans fyrir framan kirkjuna. Nú eru þau búin að senda mér myndina. Þessi og aðrar samverur með ferðamönnum sem sækja landið okkar heim eru dýrmætar. En ég spyr mig hvort að verið geti að við segjum fólki oft vitlaust til vegar á Akureyri?

Pétur Björgvin Þorsteinsson, djákni í Glerárkirkju