Áhrif samkomubanns á kirkjustarf í Glerárhverfi.

Áhrif samkomubanns á kirkjustarf í Glerárhverfi.

Samkomubannið sem stjórnvöld hafa ákveðið að setja á frá og með miðnætti aðfararnótt mánudagsins 16. mars hefur m. a. þessar afleiðingar á starfið í Glerárkirkju:

1. Fjölskylduguðsþjónusta sem átti að vera í kirkjunni 15. mars fellur niður og ekkert helgihald verður í Glerárkirkju meðan samkomubannið er í gildi.
2. Fermingar sem áætlaðar voru í apríl falla niður. Áætlað er að ferma í maí auk þess sem við munum bjóða upp á fleiri dagsetningar fyrir fermingar í sumar og haust. Þetta verður kynnt nánar fyrir foreldrum fermingarbarna.
3. Við ráðleggjum fólki að fresta skírnum og hjónavígslum. Á meðan samkomubann er í gildi þurfa allar athafnir að uppfylla þau skilyrði sem embætti landlæknis setur fyrir samkomur.
4. Útfarir geta farið fram og prestar á Akureyrarsvæðinu munu funda til að tryggja að útfararþjónusta verði í sem eðlilegustu horfi á meðan þetta ástand varir.
5. Prestar og djákni Glerárkirkju verða til viðtals í kirkjunni auk þess sem við munum auglýsa sérstaka símatíma.
6. Skipulag fermingarfræðslu auk barna- og æskulýðsstarfs verður kynnt í komandi viku.

Starfsfólk Glerárkirkju mun skoða leiðir til að styðja við samfélagið meðan við erum í þeirri stöðu að hefðbundið kirkjustarf getur ekki farið fram. Við hvetjum ykkur til að hlúa vel hvort að öðru, hughreysta þau sem upplifa ótta og kvíða, og standa vörð um þau sem eru í áhættuhópum vegna COVID 19.

Við tökum undir þá bæn sem kirkjurnar í norður Noregi hafa beðið undanfarið:

Guð
Við biðjum fyrir öllum þeim sem hafa orðið fyrir áhrifum vegna Kórana vírussins.
Við biðjum fyrir öllu heilbrigðisstarfsfólki.
Við biðjum fyrir öllum sem eru áhyggjufullir og óttast komandi tíma.
Við biðjum fyrir öllum þeim sem eru einmanna, nú þegar skipulagt félagsstarf minnkar og heimsóknir verða takmarkaðar vegna smithættu.
Hjálpaðu okkur öllum að sýna kærleika og hugrekki á þessum erfiðu tímum.
Allt leggjum við í þínar hendur Guð.
Amen

Með góðri kveðju
Djákni og prestar Glerárkirkju
Sunna, Stefanía og Sindri