Fréttir

Ákvæði um þjóðkirkju verði áfram í stjórnarskrá

Aukakirkjuþing kom saman í dag. Til þess var boðað til að ræða ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um endurskoðun stjórnarskrárinnar að því er varðar ákvæði hennar um þjóðkirkjuna. Kirkjuþingið hvetur kjósendur til að segja já við þjóðkirkjuákvæðinu.

Krefst tafarlausrar leiðréttingar

Aukakirkjuþing samþykkti ályktun um skerðingu sóknargjalda í dag. Ályktunin er svohljóðandi: ,,Aukakirkjuþing, haldið 1. september 2012, lýsir yfir þungum áhyggjum af alvarlegri fjárhagsstöðu sókna landsins. Sóknir landsins hafa tekið á sig skerðingu eins og allir aðrir í þjóðfélaginu en sú skerðing hefur verið 25% umfram stofnanir innanríkisráðuneytisins. Kirkjuþing krefst tafarlausrar leiðréttingar sóknargjalda."

Fjölmenni á fyrirlestri Péturs Péturssonar

Rúmlega 50 manns sóttu fyrirlestur dr. Péturs Péturssonar sem haldinn var í safnaðarsal Glerárkirkju í gærkvöldi. Yfirskrift fyrirlestursins var ,,Akureyri: Sigurhæðir í kristnisögu Íslands" en þar fjallaði Pétur um sigurhæðir kristni á Akureyri í víðum skilningi þess orðs og minnti á að rætur kristni í Eyjafirði liggja allt aftur til landsnáms. Þá hvatti hann yfirvöld og aðra áhugasama á Akureyri til þess að skoða betur rætur kristni í Eyjafirði, meðal annars með því að leggja vinnu og fjármagn í leit að grafreit þar sem Þórunn Hyrna liggur grafin. Að mati Péturs er næsta víst að Þórunn hafi líkt og systir hennar Auður djúpuðga ekki viljað hvíla í óvígðri mold.

Nýtt hús vígt á Hólavatni

KFUM og KFUK hefur staðið í sumarbúðarekstri við Hólavatn í Eyjafirði frá árinu 1965. Húsakostur hefur nú breyst mikið með tilkomu 200 fermetra nýbyggingar sem tekin var í notkun nú í sumar og vígt 19. ágúst. Þar eru fimm herbergi með rúmum fyrir 34 og svo tvö starfsmannaherbergi. Eldri svefnaðstöðu í gamla hlutanum hefur verið breytt í tómstundarými með borðtennisborði, fótboltaspili og fönduraðstöðu.

Fermingarstarfið hefst senn...

Nú fer fermingarfræðslan að hefjast og í næstu viku fá öll börn í ´99 árganginum með lögheimili í sókninni sent kynningarbréf um fermingarstörfin. Skráning hefst síðan í kjölfarið og hvetjum við foreldra og tilvonandi fermingarbörn til að skrá sig sem fyrst. Gert er ráð fyrir kynningarfundum um fermingarstörfin fimmtudaginn 6. september, þriðjudaginn 11. og miðvikudaginn 12. september, síðdegis eftir skólatíma.

Akureyri: Sigurhæðir í kristnisögu Íslands

Mánudagskvöldið 27. ágúst kl. 19:30 mun dr. Pétur Pétursson flytja erindi sem hann nefnir: ,,Akureyri: Sigurhæðir í kristnisögu Íslands". Allir velkomnir, aðgangur ókeypis, kaffi og meðlæti í hléi - tónlistaratriði. Nánari upplýsingar í síma 464 8800.

Takk Guð fyrir að ég er eins og ég er...

Prédikun síðasta sunnudags fjallaði um faríseann og tollheimtumanninn. Í henni talaði ég um ýmsar aðstæður þegar við hugsum: Takk Guð fyrir að ég er ekki svona..., nema auðvitað þau okkar sem eru einmitt svona...

Æskulýðskór og Barnakór æfa á miðvikudögum

Skráning og kynning á Æskulýðskór Glerárkirkju og Barnakór Glerárkirkju verður miðvikudaginn 29. ágúst næstkomandi á æfingatíma kóranna. Æfingar barnakórs eru á miðvikudögum kl. 15:30. Æfingar æskulýðskórs eru á miðvikudögum kl. 16:30. Kórstjóri er Marína Ósk Þórólfsdóttir og gefur hún nánari upplýsingar í síma 847 7910. Netfang hennar er marina.osk.thorolfs@gmail.com.

Gaman að syngja í kór

Frá Kór Glerárkirkju. Nú fer vetrarstarfið að hefjast hjá okkur og við viljum gjarna bæta við okkur góðu söngfólki í allar raddir. Sérstaklega mundum taka fagnandi á móti söngglöðum körlum. Nótnalæsi er æskileg en ekkert skilyrði. Upplýsingar gefur Valmar Väljaots kórstjóri í síma 8492949 netfang:valmar@glerarkirkja.is

Átt þú við spilafíkn að stríða?

GA eru samtök kvenna og karla sem deila með sér reynslu, styrk og von um að geta leyst sameiginlegt vandamál sitt og hjálpa öðrum að ná bata á spilafíkn. Fundir eru á neðri hæð Glerárkirkju á laugardögum kl. 10:30. Eina skilyrðið fyrir aðild, er löngunin til að hætta fjárhættuspili.