Samstarf um jólaaðstoð

Samningur undirritaður 25. okt. 2013
Samningur undirritaður 25. okt. 2013

 25. október var undirritaður samstarfssamningur um jólaaðstoð á Eyjafjarðarsvæðinu í Glerárkirkju. Fjögur samtök munu vinna saman í ár að þessu verkefni. Þau eru: Hjálpræðisherinn á Akureyri, Hjálparstarf kirkjunnar, Mæðrastyrksnefnd Akureyrar og Rauði Krossinn við Eyjafjörð.

Þessi samtök störfuðu saman fyrir jólin 2012 og gafst það samstarf vel og því er vilji til að gera samning um samstarf til þriggja ára. Í fyrra fengu 303 aðilar aðstoð en í þeirri tölu eru fleiri einstaklingar þar sem fjölskyldur eru skráðar sem einn aðili. Aðstoðin var í formi greiðslukorta sem hægt var að versla fyrir í ákveðnum verslunum.

Fjáröflun er hafin til að kosta þessa aðstoð og hefur fyrirtækjum verið send beiðni um að styðja hana. Það er von okkar að margir sjái sér fært að styðja þessa söfnun. Reikningurinn er á kennitölu Mæðrastyrksnefndar kt. 460577 0209 og er nr. 0302-13-175063.  Í fyrra söfnuðust  rúmar 7 milljónir króna.

Því miður hefur fátækt aukist og framfærsla því erfiðari hjá þeim sem hafa lægstar tekjur og því er nauðsynlegt að halda  þessari starfsemi áfram.

Þau sem skrifuðu undir samninginn voru: Birna Vilbergsdóttir fyrir Hjálpræðishersinn á Akureyri, Vilborg Oddsdóttir fyrir Hjálparstarf kirkjunnar, Sigurveig S. Bergsteinsdóttir fyrir Mæðrastyrksnefnd Akureyrar og Hafsteinn Jakobsson fyrir Rauða krossins við Eyjafjörð:

Fulltrúar Hjálparstarfs kirkjunnar á Akureyri eru Guðmundur Guðmundsson, Jón Oddgeir Guðmundsson og Ragnheiður Sverrisdóttir.