Kærleiksþjónusta

Eitt af hlutverkum kirkjunnar er að sinna kærleiksþjónustu. Markmið kærleiksþjónustunnar eru að rjúfa einangrun, skapa samfélag, fræða um kristna trú og kristin viðhorf, lina þjáningar og glæða von. Drifkraft og undirstöðu kærleiks-þjónustunnar er að sækja í boðun Jesú Krists og afstöðu hans til allra manna, kvenna, karla, barna og unglinga. Hann sagði dæmisögu um miskunnsama Samverjann og sú saga lýsir okkur langt á braut kærleiksþjónustunnar (Lúk. 10.25-37). Sjálfur leit Kristur á sig sem þjón (Matt 20.28) og hann gekk á undan með góðu fordæmi og þjónaði meðal annars þegar hann þvoði fætur lærisveina sinna (Jóh. 13.4-17). Í Matt. 25.40 segir Jesús: ,,Allt sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.” Það sem viðkomandi höfðu gert var að gefa hungruðum að borða, þyrstum að drekka, hýst gesti, klætt nakta, vitjað sjúkra og heimsótt fanga. Á trúmálavef þjóðkirkjunnar má lesa ýmsa pistla um kærleiksþjónustu, sjá hér

Allt starfsfólk og sjálfboðaliðar Glerárkirkju koma að kærleiksþjónustu kirkjunnar á einn eða annan hátt. 


 

Glerárkirkja er aðili að tvenns konar kærleiksþjónustu sem fram fer á skipulagðan hátt:

 • Trúarleg þjónusta á Sjúkarhúsinu á Akureyri:

  Prestur er Guðrún Eggertsdóttir
  Farsími er : 8600545
  Netfang : gudrune(hja)fsa.is
  Skrifstofa prests er hjá kapellu á FSA.

  Frá árinu 1995 hefur verið boðið upp á trúarlega þjónustu á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk). Fyrst með þjónustu djákna, síðan bættist við sjúkrahúsprestur árið 2006 og frá 2012 eingöngu prestur. Í starfslýsingu kemur fram að um kristilegt starf sé að ræða, þó er þjónustan veitt án tillits til trúarskoðana, allt eftir þörfum þeirra einstaklinga sem nýta sér hana. Starfið felst í sálgæslu, stuðningsviðtölum, bænastundum, helgihaldi og fræðslu. Í sálgæslu felst m.a. leiðsögn og stuðningur við þá sem mæta áföllum og þarfnast aðstoðar til að byggja upp bætta heilsu og farsæla lífsvon. Sjúkrahúsprestur situr í stuðningteymis starfsmanna og í áfallateymi SAk. Allir geta nýtt sér þjónustu sjúkarhúsprests, jafnt sjúklingar, aðstandendur og starfsmenn. Sálgæslu skal veita öllum sem eftir henni leita óháð trúarskoðunum. Viðtöl eru einkamál, þau eru ekki skráð í skýrslur.

  Frekari upplýsingar um trúarlega þjónustu á SAK má nálgast hér á síðunni.

 • Vinaheimsóknir: Á vegum Eyjafjarðarprófastsdæmis er boðið upp á vinaheimsóknir til aldraðra einstaklinga, þetta starf lætur ekki mikið yfir sér, en er smátt og smátt að eflast og aukast. Með starfinu er reynt að rjúfa einangrun fólks og koma til móts við einaklinga sem hafa lítil tök á að fara út á meðal fólks, en vilja gjarnan fá heimsóknir úr nágrenninu. Sjálfboðaliðar sem að þessu starfi standa taka gjarnan að sér einn einstakling og verður það samkomulagsatriði hve oft er komið til fólks og hvað er gert, hvort farið er út að ganga, lesið eða bara rabbað saman. Á dvalarheimilum hafa slíkar heimsóknir einnig verið vel þegnar og tengsl myndast sem báðir aðilar hafa haft ánægju af. Frekari upplýsingar má finna hér á síðunni.