Fermingar - og æskulýðsferð á Hólavatn

Í lok sumars býður Glerárkirkju væntanlegum fermingarbörnum í ferð á Hólavatn í Eyjafirði. Þar reka KFUM og KFUK sumarbúðir og höfum við fengið staðinn lánaðan fyrir ferðina og mun starfsfólk KFUM og KFUK aðstoða okkur. Fermingarferðin er upphafspunktur fermingarfræðslunnar og kynning á æskulýðsstafi Glerárkirkju og KFUM og KFUK. Þó ferðin sé hluti af fermingarfræðslunni er öllum úr árganginum hjartanlega velkomið að koma með óháð því hvort þau séu að hugsa um að fermast eða ekki. 

Farnar verða þrjár ferðir: Ungmennum úr Glerárskóla er boðið með 17. ágúst, Giljaskóla 18. ágúst og Síðuskóla 19. ágúst. (Ef einhver hefur áhuga en er ekki í þessum þremur skólum er velkomið að skrá sig í þá ferð sem best hentar). 

Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá á Hólavatni. Brottför er frá Glerárkirkju kl. 14:00 og komið er heim daginn eftir kl. 13:00. 

Skráning er á netfangið glerarkirkja@glerarkirkja.is og þarf að fara fram fyrir 13. ágúst. Við brottför þarf að greiða þátttökugjald, kr. 4.500. Hægt er að sækja um niðurfellingu þátttökugjalds vegna fjárhagsörðugleika. Þau sem þess óska eru beðin að hafa samband við sr. Jón Ómar Gunnarsson.

Það þarf að taka með sér lak og sæng, eða svefnpoka, handklæði, sundföt eða þess háttar (fyrir þau sem vilja busla í vatninu) og fatnað til útiveru (það getur orðið kalt við varðeldinn), íþróttaskó (fyrir þau sem vilja fara í fótbolta) og að sjálfsögðu  má ekki gleyma Nýja testamentinu, aukafötum og tannburstanum!

Nánari upplýsingar gefur sr. Jón Ómar Gunnarsson í síma 864-8456.